Í gær las ég ágæta grein í litlu fréttabréfi sem mér berst stundum frá ungu, dönsku forlagi (GUTKIND) sem hefur farið nýjar leiðir til að auka áhuga almennings á bókmenntum. Fréttabréfið er fínt en er bara ein af mörgum leiðum sem GUTKIND hefur valið í þeirri viðamiklu kynningarstarfsemi sem forlagið stendur fyrir til að auka umfjöllun um bókmenntir í landinu.
Ég las fréttabréfið að sjálfsögðu því mér þykir gaman að lesa um bækur og starfsemi forlaganna. Í fréttabréfinu eru stuttir textar bókmenntafólki til skemmtunar og fróðleiks. En ég undraði mig dálítið á efstu fyrirsögninni í fréttabréfinu sem hljóðaði einhvern veginn svo í íslenskri þýðingu:
Af hverju er fólk svo heltekið af Proust?
Hmm?! hugsaði ég. Ég þekki engan, ekki einn, sem er heltekinn af Proust og ég heyri satt að segja nær aldrei talað um þetta viðkvæma, franska skáld sem væri örugglega kallaður áhrifavaldur ef hann lifði á vorum dögum, því hann var vinsæll í veislum og skrifað sendibréf í gríð og erg til allra sem hann taldi sig eiga erindi við.
Það var svo sem enginn sem tók Marcel Proust sérstaklega alvarlega á fystu árum ferils hans. Bókmennatafólk og annað samtíðafólk leit á skrif hans sem hálfgerðan fíflagang, áhugamál ofdekraðs yfirstéttardrengs. En nú er Proust, skamkvæmt fréttabréfinu, á allra vörum. „Hann er alls staðar,“ segir höfundur fréttabréfsins. „það eru skrifaðar heimspekilegar bækur um Proust, sálfræðilegar bækur um Proust, um öfuguggan Proust, teiknimyndaseríur um Proust …“
„Nú, já, er það svo?“ hugsaði ég.
Þegar við hjá Bjarti gáfum út stórmagnaða þýðingu Péturs Gunnarssonar á fyrstu tveimur bókunum í hinu mikla verki Prousts Leitin að glötuðum tíma, sagði Pétur að hann mundi halda áfram að þýða öll bindin, allan hinn mikla bálk sem er í sjö bókum ef ég man rétt, þegar þessar fyrstu bækur væru uppseldar í íslenskri þýðingu. Salan gekk ágætlega en þó svo hægt að þegar síðustu bækurnar hurfu úr lagerhillum forlagsins var orðið svo langt um liðið að Pétur hafði snúið sér að öðrum verkefnum og þýðing á meiri Proust var einhvern veginn út úr kortinu.
En hvað um það. Ég fór að leita að Proust-bókunum í bókahillunum mínum, Leitin að glötuðum tíma, sem Bjartur gaf út fyrir langa löngu. Auðvitað fann ég bækurnar ekki, ekki frekar en aðrar bækur sem ég leita að. En mér til furðu, og skelfingar, sá ég að ég hafði raðað bókum Eiríks Guðmundssonar við hlið bóka hins vinsæla rithöfundar, Hallgríms Helgasonar. Ég hugsaði með mér að ekki væri gott að setja þessa tvo rithöfunda hlið við hlið. Ég hafði heyrt út undan mér að samskipti þeirra á félagsmiðlinum Facebook (skammstafað FB) hefðu farið herfilega úrskeiðis. (Ég veit ekki afhverju þeir töluðu saman í gegnum þann miðil þegar þeir áttu persónulega eitthvað ósagt hvor við annan, en þó aðallega annar við hinn. Kannski vildu þeir eða annar þeirra að allir landsmenn gætu orðið vitni að samtali þeirra.) En nú hef ég flutt bækur Hallgríms og sett þær við hlið bóka SJÓNS í von um að nú sé meiri sátt meðal höfunda í bókahillunum mínum.