Hinn innri persónuleikaspæjari

Þegar ég var staddur á Íslandi í vor var hringt til mín seint um kvöld. Síminn minn hringir ekki svo oft og setur símhringing stundum af stað eitthvað efnaferli innra með mér sem sennilega er hægt að túlka sem viðbragsstöðu sálarinnar. Ef símhringingin á sér stað seint um kvöld eru þessi viðbrögð espuð enn frekar. Þetta kvöld – og satt að segja í hálfan mánuð – var ég einn í sumarhöllinni í Hvalfirði. Ekki var sálu að finna í margra kílómetra radíus og því gat ég ekki bara hlaupið út í næsta hús ef ég þyrfti á hjálp eða huggun að halda. Þegar þögnin í sveitinni var rofin af síma þetta  kvöld flugu því margar hugsanir í gegnum höfuðið á mér áður en mér tókst að líta á símaskjáinn til að sjá hver hringdi. Á skjánum var íslenskt símanúmer sem hvorki ég né gagnagrunnur símans míns þekkti.

Svo langt var liðið á kvöldið að ég náði að hugsa að þetta væri ókristilegur tími til að hringja og ég hikaði með að svara og svo dó símhringingin út áður en ég náði að grípa símtólið.
Hmm? hugsaði ég, hver skyldi þetta hafa verið? En svo ýtti ég þeirri hugsun frá mér og hélt áfram að sinna því sem ég var að bauka einn í vorrökkrinu. Ekki liðu margar mínútur áður en síminn hringdi aftur og sama númer stóð á skjánum. Ég átti ekki annarra kosta völ en að svara símhringingunni.
„Halló og gott kvöld,“ sagði ég með mínum hressasta rómi.
„Er þetta Snæbjörn?“
„Já, ég heiti Snæbjörn.“
„Fyrirgefðu hvað ég hringi seint, þú varst ekki farinn að sofa … eða …?“
„Nei, allt í lagi …“ sagði ég og reyndi að láta þá spurningu skína í gegnum orð mín  að ég vænti þess að manneskjan á hinum enda línunnar kynnti sig og bæri upp erindi sitt. Ég þekkti ekki röddina sem talaði við mig en ef ég var ekki of vitlaus í að greina raddir þá hefði ég haldið að sú sem talaði í símtólið við  hinn endann væri kona (kyn), milli þrítugs og fertugs (aldur) en um menntun og stéttarstöðu treysti ég mér ekki að segja.

(Ég viðurkenni að ég var undir örlitlum áhrifum af undarlegri blaðagrein sem ég hafði lesið fyrr um kvöldið sem var á ensku og hét How Good a Character Detective Are You. Greinin var í sjálfu sér bull og vitleysa … „Á meðan þú bíður eftir að röðin komi að þér hjá tannlækninum, hárgreiðsludömunni eða bara þegar þú ert staddur í strætóbiðskýlinu með öðru bíðandi fólki, reyndu að lesa þau merki sem ferðafélagar þínir í gegnum lífið senda. Athugaðu til dæmis hvernig þeir ganga (þeir með stirðu og stífu hreyfingarnar eru oft ósveigjanlegir einstaklingar … kæruleysislegar hreyfingar bera oft vott um veika lund …“)

Á þessum stað í samtalinu hafði minn innri persónuleikaspæjari vaknað og ég reyndi að greina  hvers konar manneskju ég ætti í höggi við, hvers konar manneskja ætti erindi við mig seint um kvöld án þess að gera almennilega grein fyrir sjálfri sér. (Var þetta geðsjúklingur, var þetta aðdáandi, fjandmaður …)  Ég verð að segja að ég gat ekki sálgreint þessa konurödd; hver hún var eða hvað hún vildi og þegar hikið á hinum enda línunnar varð óvenju langt, eins og sá sem talaði þyrfti að hugsa sérstaklega lengi um það sem hún vildi segja við mig – og einmitt þessi þögn vakti ugg hjá mér. Engu var líkara en að erindið sæti þvert í henni og það væri viðkvæmt af einhverjum ástæðum.  Nákvæmlega svona aðstæður vekja alltaf upp samviskuna hjá mér og ég velti fyrir mér hvort ég hafi óvart móðgað þessa konu eða gert eitthvað á hennar hlut án þess að ætla mér það og nú biðu mín skammir og svívirðingar. Ég þoldi biðina illa og því sagði ég með blíðum rómi:
„Og hvað get ég gert fyrir þig?“
„Já, það er nú það …“ sagði konan og enn bættist við þögnina sem bara lengdist og lengdist. Ég lokaði augunum og heyrði að hún umlaði eitthvað sem gaf til kynna að hún gerði tilraun til að orða hugsanir sínar. Ég beið.
„Já, ég veit að þetta er óvenjulegt því þú þekkir mig ekki … en ég … já, ó, ég gleymi alveg að kynna mig …“ og svo sagði hún nafn sitt. Ég vissi vel hver hún var.
„Blessuð … ég veit hver þú ert …“ sagði ég og reyndi að vera uppörvandi.
Hún flissaði.
„Já, ég var að velta fyrir mér hvort þú gætir hjálpað mér …“
„Já?“
„Mig langaði svolítið að bera svolítið undir þig … Ég hitti nefnilega mann fyrir nokkrum mánuðum … við höfum þróað með okkur einstaka vináttu … og mig langar að skrifa um hann bók því hann getur svolítið sem enginn annar sem ég þekki hefur hæfileika til og …“
„Já …“ sagði ég.
„Ég hringi til þín af því að þú hefur reynslu af bókaútgáfu … og svona …“
Ó, nei, hugsaði ég.
„Hvað er það sem vinur þinn er svo góður í …“
„Það er svolítið erfitt að lýsa því en hann getur staðið tímunum saman og horft á trén og gróðurinn eins og hann sé hreinlega á valdi náttúrunnar. Hann segir af gífurlegum sannfæringarkrafti að trén og blómin séu eins og fuglarnir og fólkið. Þau hugsa og tala sín á milli. Og hann segir að ef maður bara þagnar eitt augnablik, tæmir hugann og einbeiti sér, geti maður vel heyrt samtöl blóma og annarra jurta. Mig langar að skrifa bók um hann og láta hann segja mér frá samtölum trjánna … og svona.“
„Já.“
„Heldurðu ekki að það sé áhugi fyrir svona bók?“

Ég gat því miður ekki hjálpað þessari konu en benti henni á að tala við alvöru forleggjara til að heyra um áhuga fyrir þesskonar útgáfu.

Ég segi frá þessu hér því í gær var ég stöðvaður á hlaupum mínum um götur bæjarins af manni sem átti nákvæmlega samskonar erindi við mig og ætlar að koma við hjá mér á morgun klukkan 10:00 og segja mér frá bókahugmynd sinni. Hvenær ætli ég sleppi undan þessu hlutverki?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.