Um síðustu helgi var ég svo heppinn að vera boðinn í afmæli hjá félaga mínum. Hann hafði valið að bjóða bara nokkrum af vinum sínum í mat og takmarka gestafjöldann mjög. Slík afmæli geta verið mjög skemmtileg (og líka þau þar sem fjöldi manns er samankominn). Meðal afmælisgesta voru bara afmælisbarnið og tveir aðrir gestir sem ég þekkti. En það var líka fínt. Í afmælinu kynnti afmælisbarnið mig fyrir ungum manni sem hefur síðustu ár unnið við að vera aðstoðarleikstjóri við tökur á nokkrum kvikmyndum. Ég hef áður heyrt vin minn tala um þennan unga mann því hann er gæddur sérstakri náðargáfu sem ég hef sérstakan áhuga á.
Ég tók strax eftir því þegar ég hóf samtalið við unga manninn að vinur minn hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að hann hefði einstaka eiginleika til að hrífast og sýna hrifningu sína á einlægan og tilgerðarlausan hátt. Einmitt þessi einlægi hæfileiki unga mannsins varð til þess að hann var ráðinn til að vera aðstoðarleikstjóri hjá félaga mínum.
Ég fór að hugsa um tíma minn sem forleggjari á Íslandi, hvort ég hafi verið nógu hvetjandi þegar ég varð hrifinn. Sennilega hef ég ekki verið það. Ég man eftir mörgum handritum sem ég las eftir íslenska höfunda sem vöktu ómælda hrifningu hjá mér: Engill meðal áhorfenda, Þorvaldur Þorsteinsson. Blíðfinnur, Þorvaldur Þorsteinsson. Góðir Íslendingar, Huldar Breiðfjörð. Skurðir í rigningu, Jón Kalman. Ýmislegt um risafurur, Jón Kalman. Hvíldardagar, Bragi Ólafsson. Krosstré, Jón Hallur. Þegar þú horfir á mig, Guðrún Eva … Svona get ég haldið lengi áfram og bætt mörgum nöfnum við. Og ég gleymi ekki þeirri tilfinningu sem hríslaðist um mann um leið og maður uppgötvaði hve handrit var gott.
Maður, sem forleggjari, verður maður óður og uppvægur og vill af svo miklum innileik koma þessum bókum til lesenda. Sennilega var hrifning mín skýrust þegar ég hitti lesendur í forlagsbúðinni hjá Bjarti því ég hef sennilega gefið þeim sem þangað komu í heimsókn að minnsta kosti helming þeirra bóka sem þau fóru með út úr búðinni. Mér þótti svo brýnt að áhugafólk um bókmenntir ætti möguleika á að lesa allar þær góðu bækur sem höfðu borist til mín og ég hafði fengið að gefa út.
Ég hélt mjög upp á marga af höfundum mínum, en ég gat sennilega ekki leynt vonbrigðum mínum nógu vel ef þeir skiluð handriti sem ég varð ekki stórhrifinn af. En hvað um það. Ef ég væri aftur orðinn forleggjari mundi ég leggja áherslu á að sýna í verki þá ánægju sem ég skynjaði þegar ég fékk verulega góða bók í hendurnar.
Án þess að fara að rifja upp sorgarsögur man ég líka enn hvað ég varð sár og sorgmæddur þegar einhver af þeim höfundum sem ég hafði mætur á, og gleði við að gefa út, ákváðu að yfirgefa forlagið og leita til annars útgefanda sem þeir töldu að gæti veitt þeim eitthvað meira en mér var mögulegt. Furðulegt að ég hugsi stundum enn um þetta, mörgum árum síðar.