Atvik á hringtorgi

Enn heldur keppnin áfram í fagurfræði hlaupabrautanna við hinn mikla leikhúsmann Benedikt Erlingsson. Og ég er að tapa. Eða ég var að tapa. Hann hefur bæði teiknað hjarta og eilífðaráttu með hlaupabrautum sínum og tók  í fagurfræði framúr þeim teikningum sem mér hafði tekist að pára. En keppnin hefur þróast. Það er ekki nóg að teikna fagra hlaupabraut heldur þarf að útlista eða lýsa og skýra hvað auga Guðs sér ofan af himninum þegar hann sér mynstrið sem myndast í slóð okkar.

Einu sinni var ég staddur á kaffitorgi rétt við hringtorg í París. Á kringlóttu borðinu fyrir framan mig stóð kringlóttur kaffibolli og á litlum kringlóttum diski stóð lítil kringlótt hnetukaka. Allt er kringlótt, hugsaði ég og leit út á hringtorgið þar sem bílarnir keyrðu hring eftir hring. Ég hafði sjónaukann minn meðferðis eins og svo oft áður og ég virti fyrir mér vegfarendur á götum stórborgarinnar sinna erindum sínum í gegnum sjónaukann. Inn á sjónsvið kíkisins kom allt í einu hjólandi eftir götunni einbeittur, ungur maður í einskonar  vinnuslopp, blágráum að lit sem blakti á eftir honum eins og skikkja Supermanns. Maðurinn vakti athygli mína því hann virtist vera á gífurlegri hraðferð og brunaði á hjóli sínu inn á hringtorgið án þess að hægja ferðina eða líta í kringum sig. Skyndilega og án þess að ég gæti greint orsök hentist hjólið upp í loftið, afturhjólið gnæfði allt í einu yfir unga manninum í vinnusloppnum og svo flaug hann sjálfur hátt upp í loftið, skikkjan vafðist utan um höfuð hans og svo skall hann nokkrum sekúndubrotum síðar niður í götuna.
SLYS! hugsaði ég og hélt áfram að stara í gegnum sjónaukann. Bílarnir námu staðar, sumir þeyttu bílflauturnar, sumir ökumennirnir stukku út úr bílum sínum til að athuga hvort ungi maðurinn væri óskaddaður.

Mér til mikillar furðu reis ungi maðurinn strax á fætur, eiginlega spratt á fætur, og byrjaði síðan safna saman af einbeittri nákvæmni þeim skjölum sem höfðu flogið úr töskunni sem hann hafði haft á öxlinni. Hann tók blöð, ritföng  og umslög og setti rólega niður í töskuna sína. Maðurinn lokaði síðan töskunni  en hélt áfram að svipast um á hringtorginu. Bílarnir, sem komust ekki leiðar sinnar, flautuðu en hann lét ekki trufla sig heldur gekk um og virtist leita einhvers. Loks beygði hann sig niður og tók eitthvað upp úr götunni. Ég stillti skerpuna á sjónaukanum og sá að þetta var gulur blýantsstubbur, ekki lengri en 5 cm. Blýantinn setti hann í buxnavasa sinn. Hann er trúr yfir litlu, hugsaði ég, og verður yfir mikið settur.

Ég minnist á þetta hér því þessa senu ákvað ég að myndskreyta með hlaupabraut dagsins og sýnir myndin framhjól reiðhjóls unga mannsins. Því þegar hann reisti reiðhjólið upp úr götunni sá ég í gegnum kíkinn minn að teinar framhjólsins voru bognir og brotnir og stóðu út í allar áttir. Sjálf gjörðin var ekki lengur hringlaga heldur nær því að vera sporöskjulaga, en það form, hvorki á fram- eða afturhjóli reiðhjóls, er ekki hentugt þegar maður velur að ferðast hratt eftir götum stórborgarinnar.

Og hér er myndin:

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.