43 stuttar sögur, 301 orð hver og 12943 orð samtals. Svona hljóðar lýsingin á bókinni 43 smámunir eftir Katrin Ottarsdóttir. Hún er skáldkona frá Færeyjum. Í morgun kláraði ég að lesa sögurnar 43 en ég hafði gert nokkrar atlögur að lesa bókina til enda.
Mér finnst gaman að svona koncept-bókum; 43 sögur 301 orð hver. Hugmyndin er skemmtileg en þegar ég lokaði bókinni eftir að hafa lesið síðustu síðu hennar varð ég hálf tómur. Eiginlega varð lesturinn til þess að ég fór að spyrja mig um tilgang skáldskapar (sú spurning vaknar reglulega í mína litla höfði). Mér þótti bókin í sjálfu sér þokkaleg og ágætlega samin en kveikt samt einhverja tilfinningu um tilgangsleysi – hvað átti þessi skáldskapur að gera fyrir mig? Hvað áttu sögurnar að vekja? Kannski er ég eitthvað andlaus um þessar mundir en mér fannst einmitt bókin auka á andleysi mitt – hugsunin um fánýti bókmenntanna sem sækir á mig ef ég les eitthvað sem mér finnst brennt af meðalmennsku. En það merkilega er að í mínum huga er bókin hennar Katrinar eiginlega yfir meðallagi góð svo ég get bara sennilega kennt eigin andleysi um þessa tilfinningu sem hellist yfir mig.
Þeir sem sá með tárum munu uppskera með gleðisöng, stendur einhvers staðar, og þetta voru orðin sem mér duttu í hug þegar ég kvartaði undan andleysi mínu.
ps. Ég hef ekki skrifað í nokkra daga – enda verið á ferðalagi um Langeland – en ég verð gífurlega óánægður með sjálfan mig yfir að halda ekki dampi í dagbókarskrifum. Það er einhver slappleiki að skrifa dagbók án þess að fylla hana með dögum sínum, öllum sínum dögum.
pps. Ég fletti þessu upp með tárin og uppskeruna og fann að framhald þess er: „Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisögn koma þeir aftur og bera kornbindin heim.“ Ég veit ekki hvernig manni ber að túlka þetta en örugglega er einhver lykill að þessum orðum.
ppps. Göngutúr gærkvöldsins: Hvað sá auga Guðs? Teikningu af gruflandi manni?