Blýþungir ritskoðunarhlekkir

Það er júnímorgunn og mér heyrist að það rigni í Reykjavík og líka í Hvalfirði á meðan sólin skín hér í Danmörku og vermir allt. Ég hljóp í morgun og teiknaði mynd af hundi, Snoopy, með hlaupaleið minni. Það var heitt og hlaupið var erfiðara fyrir vikið. 6,3 kílómetrar og ég var rennsveittur eins og finnskur saunagestur þegar ég lauk hlaupinu fyrir utan húsið mitt.

Ég get ekki gert að því að mér finnst ég á einhvern hátt hlekkjaður nú þegar ég skrifa dagbók mína (og það satt að segja spillir ánægju minni). Fyrir tveimur mánuðum eða svo tók ég mér skrifhlé frá Kaktusnum því ég var barinn í hausinn með hamri félagsmiðlastjörnu einnar sem ég hafði víst móðgað. Nú hef ég aftur tekið upp þráðinn því ég fann að  dagbókarskrifin höfðu veitt mér mikla gleði sem ég hafði saknað. En ég er enn að jafna mig eftir hamarshöggið og reyni ákaft að rífa af mér þessar rithömlur, sem hafa verið lagðar á mig, en ekki tekist það almennilega. Ég er heftur eins og fangi í hlekkjum, dragandi á eftir mér hina blýþungu ritskoðunarkúlu sem sumar stjörnur samfélagsmiðlanna leggja á frjálsa hugsun. Ég heyri utan af mér að Eiríkur Guðmundsson hafi enn og aftur beðist afsökunar á gömlum útvarpspistli (þrjár afsökunarbeiðnir vegna sama pistils) nú í útvarpspistli og ég get ekki annað en verið hissa á öllum þeim hasar. Ég er hræddur um að þetta mál eigi eftir að fylgja Eiríki lengi og hefta allan hans framgang.

ps Ég fékk bókasendingu í gær. Ég hafði pantað fjórar bækur, þar á meðal In Cold Blood á dönsku og grunnbók stærðfræðinnar Elementer eftir Euklid. Hvað ég get orðið ánægður yfir svona fínum bókasendingum.

pps. Ég les enn In Cold Blood eftir Truman Capote (er á síðustu köflunum) og ég er innilega hrifinn. Svakalega er þetta vel samin bók. Getur verið að öfund stýri illskunni í fólki? Óvinurinn: sá sem er eitthvað sem maður vill sjálfur vera eða sá sem á eitthvað sem maður vill sjálfur eiga?

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.