Vísindafólkið í stuði.

Í gær teiknaði ég Snoopy með hlaupaleið minni og í dag hljóp ég aftur af stað í góðviðrinu með þann góða ásetning að betrumbæta myndina af Snoopy. En eins og stundum áður varð mér á í messunni og ég ýtti á rangan hnapp á Garmin-úrinu svo hlaupaleiðin var ekki teiknuð. Úrið hélt að ég væri að hlaupa á hlaupabandi.

Mér finnst stundum – eins vitlaust og það nú er –  hálfskammarlegt að vera að eldast og vera ekki lengur á besta aldri. Maður finnur hnignunina læðast inn í kropp og huga, því miður. Fátt verður betra með aldrinum. Nema maður finnur fyrir örlítilli frelsistilfinningu yfir að vera orðinn hálf óþarfur og úreltur. Maður er einhvern veginn á öfugum enda og það er bara fínt að geta verið klikkaði gamlinginn út í horni sem dásamar tjáningarfrelsið og málfrelsið og segir það sem er óviðeigandi vegna ástar sinnar á sannleikanum, fegurðinni, húmornum, ögruninni, listinni, fyrirgefningunni …

En nú fer ég til Kaupmannahafnar og hitti annan fyrrum útgefanda. Við ætlum að borða saman hádegismat og svo getum við borið saman bækur okkar yfir sumarmat og bjór.

ps. Í nótt gerðist hið óvænta. Nágrannar mínir, rólega vísindafólkið sem aldrei heyrist í hófu ákafa drykkju í nótt. Ég vaknaði, nýsofnaður klukkan hálf eitt, við hárreisti fyrir utan svefnherbergisgluggann hjá mér og þar sat unga vísindaparið yfir litríkum sumardrykkjum og talaði hátt. Og þau héldu áfram fram til klukkan þrjú í nótt og urðu sífellt háværari og fóru allt í einu að spila tónlist á hæsta styrk. Verst þótti mér að tónlistin var ekki við mitt hæfi og ég gat ómögulega sofið undir þessu óvænta stuði vísindamannanna.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.