Á morgnana vakna ég á milli klukkan sex og hálfsjö. Mér finnst gott að vakna þótt það taki mig stundum nokkrar mínútur að koma mér fram úr rúminu. En þegar ég opna augun á morgnana vil ég ekki sofa lengur. Margir tala um að þessi tími sé erfiðasta stund dagsins – að vakna – en ekki fyrir mig.
Mitt fyrsta dagsverk er að hella upp á kaffi. Kaffiuppáhellinguna þarf ég ekki að undirbúa kvöldið áður eins og ég hef tekið eftir að sumir gera. Setja vatn í vatnstank kaffivélar og kaffiduft í kaffisíuna til að geta sett kaffið fyrihafnarlaust í gang næsta morgun. Þetta þarf ég ekki að hugsa um því það er einfalt að búa til kaffi á á heimilinu mínu, hér er nespresso-kaffivél. Í vélina eru sett kúpt kaffihylki, maður ýtir á hnapp og síðan kemur kaffið út í gegnum stút á vélinni. Ég á mitt uppáhaldshylki, brúnt, og kaffið er bæði sterkt og ilmandi. Mér finnst þessi tegund nespresso-kaffis gott. Á meðan kaffið rennur ofan í kaffibollann, sýð ég hafragraut og tæmi uppþvottavélina. Á heimilinu er ég kallaður sérfræðingur í uppþvottavélum því ég fer fram á að diskum og glösum sé raðað á sérstakan hátt í grindina. Ég vil nefnilega vera fljótur að tæma vélina og því er það mikilvægt að diskar séu settir í rétt kerfi í grind uppþvottavélarinnar. Ég segi ekki að þessi sérfræðiþekking mín á uppþvottavélum sé uppspretta stolts – ég skammast mín heldur ekki ~ en fjölskyldan gerir grín að mér. Ég get líka sagt að ég gefi fjölskyldunni, meðvitað og ómeðvitað, margar ástæður til að skemmta sér yfir mér.
Ég kveiki mér ekki í sígarettu strax eftir að hafa drukkið kaffi eins og svo margir gera. Ég hef aldrei ánetjast tóbaksreyk, eða nikótíni, sem er víst fullkomið vímuefni, einfalt og hart. Nikótínvíman sjálf veitir ekki neinskonar gleði heldur kemur kikkið eða léttirinn vegna þess að manni hættir að vanta efnið í kroppinn. Það er gaman að sjá fólk reykja, sérstaklega fyrstu sígarettu dagsins. Fjarrænt blik augnanna hjá reykingarmanni með dagsins fyrstu sígarettu er sjarmerandi.
Ég á afmæli í nóvember og ég heiti Snæbjörn. Þetta rifja ég upp á hverjum morgni því ég hræddur um að gleyma. Ég kann ágætlega við afmælismánuðinn og líka nafnið. Miklu betur nú en þegar ég var barn. Þá fannst mér nafnið á einhvern hátt hallærislegt og ég var feiminn við það. En nú, sérstaklega eftir að ég flutti til Danmerkur, er ég glaður að heita Snæbjörn. Danir eru sérlega heillaðir af nafninu. Snii-bjorn, segja þeir og aðdáunin í raddblænum er greinileg. „Æj, hvor er det et smukt navn … Snii-bjorn …“
Nafnið fæ ég frá langafa mínum sem var kempa. Snæbjörn frá Hergilsey var hann alltaf kallaður og þegar ég, sem nýútskrifaður stúdent, vann á sjúkradeild fyrir veik gamalmenni þekktu allir sjúklingarnir langafa minn og ég naut sérstaklega góðs af því að vera af hans ætt.
Ég segi frá þessu hér af því að líf mitt er einstaklega einfalt á morgnana en aðrir sem ég þekki geta flækt tilfinningar sínar alveg frá fyrstu morgunskímu. Ég er glaður, dagurinn læðist hljóðlega til mín og ég finn sjálfan mig koma hægt og rólega inn í líkamann. En í gærmorgun fékk ég tölvupóst sem augljóslega var skrifaður í geðshræringu og það snemma morguns. Bréfið var frá félaga mínum sem þurfti að segja mér frá einhverri óánægju sem mér fannst óþörf. Hann skrifaði með undarlegum þjósti um fyrirtæki, sem lifir af því að veiða fisk úr sjónum, gera hann söluvænlegan og selja hann til útlanda og hafði gefið Hinu íslenska bókmenntafélagi peninga. Honum fannst peningarnir koma úr rangri átt og Hið íslenska bókmenntafélag ætti að afþakka þessa peningana. Hann sjálfur ætlaði að segja upp áskrift sinni að Skírni. Ég var hissa. Ég skildi þetta ekki. Eru peningar frá tryggingarfélagi, banka eða bílaverkstæði betri? Mér finnst þakkarvert að fyrirtæki – hverjar sem uppsprettur peninganna þeirra eru – hafi áhuga á að efla menningu í landinu. Stýrir öfundin of miklu? hugsaði ég. Er fólki illa við þá sem eiga eitthvað sem maður sjálfur vill eiga – í þessu tilviki margar krónur?
ps. Ég var inni í Kaupmannahöfn í gær og hitti forleggjarann fyrrverandi. Það var góð stund.
pps. Ég sagði frá því að rólega vísindafólkið sem býr í næsta húsi hafi verið í óvenjulegu stuði á miðvikudagskvöldið. Í gær var fimmtudagskvöld og aftur sýndi þetta vingjarnlega og hægláta vísindafólk á sér nýjar hliðar. Fyrir utan að sitja með litríka sumardrykki fram eftir nóttu annað kvöldið í röð (ég hef ekki séð fyrr að þau hafi verið sérlega sólgin í áfengi) höfðu þau tekið risastórt sjónvarpstæki með sér út í sumarnóttina. Ég vaknaði klukkan tvö í nótt við samtal á ensku fyrir utan gluggann minn og skömmu síðar heyrði ég byssuskot hljóma í næturkyrrðinni. Ég gat ekki annað en farið á fætur og kíkti út um gluggann og þarna sátu þau tvö, fulltrúar vísindanna á Søbækvej, upplýst af birtu sjónvarpsskjár sem sýndi eitthvað sem líktist helst gamalli cowboy-mynd. (Ég sá menn á hestum í þurru klettalandslagi ríðandi framhjá stórum kaktus.) Þau höfðu auk sjónvarpsins tekið með sér borð og stóla út á veröndina. Á borðinu voru ekki bara þessir skærlitu sumardrykkir heldur líka stór skál með poppkorni.