Einfalt og nasty

Ég vaknaði upp við vonda drauma í morgun. Það var óþægileg tilfinning sem kraumaði innra með mér þegar ég opnaði augun, með höfuðið á koddanum og sængina breidda yfir minn langa kropp. Ég leit á úrið, sá að klukkan var fimm mínútur í sex og ég hafði sofið nóg. Sólin skein inn í gegnum rifu á gluggatjöldunum og lýsti upp svefnherbergið.  Í draumnum hafði ég verið gerður að athlægi. Bókmenntafjölskylda ein sem ég þekki lítillega, og bara af góðu einu, stóð fyrir því að gera mig tortryggilegan fyrir alþjóð í þessum draumi. Birtu myndir af mér um leið og þau komu með ásakanir um að ég hefði óæskilegar skoðanir. Þetta var ekki þægileg tilfinning að vakna við og ég fann að hjartað sló hraðar en venjulega.

Kannski dreymdi mig þennan draum því ég fór að velta því fyrir mér í gærkvöldi rétt áður en ég sofnaði að nú eru valdamenn á samfélagsmiðlum farnir að birta myndir af þeim sem hafa andstæðar skoðanir og gera þá bæði hlægilega og tortryggilega með myndbirtingunni. Eins og þeir sem myndin er af eigi að skammast sín fyrir eigin persónu. Í gamla daga voru glæpamenn festir í gapastokk út á torgi svo almenningur gæti skoðað afbrotamennina, hlegið og hæðst að þeim.

Að vera til sýnis er ekki góð tilfinning. Og nú er þetta aðferðin sem beitt er á samfélagsmiðlum: að sýna þá sem eru á öndverðum meiði eins og gapastokksglæpamennina í gamla daga. Það er ekki lengur tekist á um skoðanir með rökum heldur eru persónur andstæðinganna gerðir hlægilegir og asnalegar svo hægt sé að hía. Mikið er þetta einföld og nasty aðferð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.