Fingurkossinn

Það var heitt í gær. Ég hafði bæði hlaupið langt og þar á eftir spilað tennis í hitamollunni. Ég var frekar búinn á því, eins og sagt er. En ég átti erindi á bensínstöðina í bænum að loknum tennisleiknum og hafði ásamt öðru keypt mér Pepsi Max sem er sú lúxusvara sem ég leyfi mér þegar ég er í sérlega góðu skapi. Bílnum mínum hafði ég lagt út við kantinn á bensínstöðvarplaninu. Þarna stóð hann, bíllinn minn, undir brennheitri sólinn og yfir svörtu malbikinu sveif titrandi hitaslæða. Þögnin í svona hita er svo þægileg, mér líður eins og ég sé leikari í kvikmynd, hugsaði ég þegar ég gekk með kalda gosdósina yfir bensínstöðvarplanið. Um leið og ég ætlaði að stíga upp í bílinn hringdi síminn. Í stað þess að setjast  í bílstjórasætið og klára símatalið þar, hallaði ég bakinu upp að brennheitum bílnum, lét sólina ylja mér í framan og bar símann upp að eyranu. „Alló.“ Stórt, glóandi bensínstöðvarplanið blasti við mér.

Það skiptir í rauninni ekki máli hver var á hinum enda línunnar en símatalið dróst á langinn. Ég tók eftir því að gamall bíll ók hikandi inn á bensínstöðvarplanið og nam staðar við loftdæluna. Þetta var hrörlegur og beyglaður Volkswagen Golf. Út úr bílnum stigu tvær konur, rúmlega þrítugar. Það fór ekki á milli mála að ungu konurnar voru óvenju fagrar, það geislaði af þeim þokkinn og glæsileikinn. Í mínum huga var svo óalgengt að sjá tvær svona þokkafullar konur á sama augnabliki að ég fór að ímynda mér að hitinn, birtan og kannski það sem kallast hitahyllingar skekktu eitthvað myndina sem birtist mér. Gat verið að tvær konur, ekki bara þokkafullar heldur mjög þokkafullar, kæmu út úr einum bíl og svona druslulegum?

Ég hélt áfram að tala í símann og fylgdist af og til með konunum tveimur baksa eitthvað með loftdæluna. Þær bogruðu við framdekk bílsins og virtust eitthvað óöruggar í athöfnum sínum. Loks sneri önnur kvennanna sér við og gekk ákveðnum skrefum í átt til mín. Þótt fjarlægðin á milli okkar væri varla meira en þrjátíu metrar fannst mér ferðalag konunnar yfir planið taka undarlega langan tíma. Mér hálfbrá þegar ég skildi að konan virtist eiga erindi við mig. Ég kvaddi manninn í símanum í skyndi og beið þess að heyra hvað þessi mikla gyðja vildi mér, slánanum. Hún hafði sítt, ljóst hár og – það fannst mér óvenjulegt – þvert yfir ennið hafði hún leðurband, hippaband.

Hún var róleg, brosandi og virtist sjálfsöryggið holdi klætt – óöryggið var allt mín megin. Í svip hennar var góðvild og hamingja – ég var sannfærður um að hún hefði aldrei í lífinu kynnst öðru en góðu einu frá mönnum og dýrum og meira segja samstarfsfélögum. Og af hverju kom hún til mín, svona ung og aðlaðandi? Hún vildi, eins og hún orðaði það sjálf „láta athuga loftþrýstinginn í dekkjunum, sem sagt á bílnum þarna (hún benti). Það væri mælt með því af öllum heimsins umferðarráðum að maður gengi úr skugga um loft væri í dekkjum … í öryggisskyni.“ Þessi unga kona var ekki bara falleg og góð hún var líka gáfuð og aðdáun mín á henni óx með hverri mínútunni sem leið. Ekki gat ég neitað að aðstoða hana. Auðvitað ekki.

Ég státa ekki af því að hafa vit á bílum eða loftþrýstingi í bíldekkjum en mér til happs mundi ég að mér hafði einu sinni verið sýnt,  ekki bara hvernig maður mælir þrýstinginn, heldur líka hvernig maður veit hver hinn rétti þrýstingur er. Ég gekk með ungu konunni að farartækinu hennar og hófst þegar handa, áfjáður í að sýna að mér var ekki alls varnað. Hin unga konan, sem var með gljáandi svart hár, tók á móti mér með sama góðvilja og innileika og sú ljóshærða hafði sýnt. Ég heilsaði og leit síðan á bílinn. Maður verður fyrst, útskýrði ég, að finna út hver hinn rétti, eða ákjósanlegi, dekkjaþrýstingur er. Ég gægðist með leikrænum tilburðum inn í gegnum hliðarrúðuna og sagði svo með yfirveguðum tóni að bíllinn væri létthlaðinn og það skipti máli og það hefði líka þýðingu af hvaða tegund farartækið væri. „Volkswagen,“ sagði ég. „Venjulega er lítil málmplata fest neðst á bílstjórahurðina þar sem upplýsingar um dekkjaþrýsting eru skrifaðar.“

Ég opnaði dyrnar, benti á málmplötuna og ég fann að ég óx örlítið í áliti hjá konunum. „Sjáið. Hér stendur 2,3 kílóbar fyrir framdekkin.“ Síðan mældi ég þrýstinginn í vinstra framdekkinu. 0,6 kb. Ég sneri mér að þeim og sagði með þeirri alvöru í röddinni sem aldur minn réttlætti, að það hefði verið gott að þær hefðu leitað aðstoðar hjá mér. Of lítill dekkjaþrýstingur gæti leitt til að veggripið væri ekki fullnægjandi og til lengri tíma litið væri slys óumflýjanlegt. Sú ljóshærða afsakaði sig og sagði „æ,  hræðilegt,“ og lagði hönd sína á öxl mína þar sem ég kraup við dekkið. „Þakka þér innilega fyrir hjálpina, nú getum við tekið við. Þú hefur kennt okkur handtökin og ef til vill bjargað lífi okkar.“

Ég viðurkenni að ég var svolítið ánægður með mig þegar ég ók af stað. Fyrst tók ég aukahring á bensínstöðvarplaninu á bílnum mínum –  sigurhring, hugsaði ég –  til að keyra framhjá ungu konunum sem voru í óða önn að pumpa í dekk Volkswagen-bílsins. Ég veifaði glaðlega til þeirra, þær reistu sig báðar upp og veifuðu á móti. Ég sá ekki betur – kannski voru það hitahyllingarnar – en að unga konan með hippabandið sendi fingurkoss á eftir mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.