Það lítur út fyrir að eftir því sé tekið hér í bænum hve oft ég hleyp fram og til baka eftir Strandvejen, því ég hitti æ oftar fólk sem minnist á það við mig að það hafi séð mig á hlaupum. Sumir leggja meira að segja á sig að greina hlaupastílinn, hraðan eða þreytustig hlauparans. Ég hef svo sem ekki lagt mikla þýðingu í þessar athugasemdir og mér er í rauninni alveg sama hvað fólki finnst um hlaup mín. En í gær fékk ég nokkuð óvænta heimsókn.
Síðdegis var ég eitthvað að bauka fyrir framan húsið í sólskininu – jú, ég var að undirbúa að kveikja upp í pizzaofninum – þegar ung kona á hvítum, háhæluðum skóm kom gangandi inn gangstiginn að aðaldyrunum. Ég minnist á skóna því mér varð starsýnt á þessa himinháu hæla, hvítan lit skónna og rauðu táneglurnar sem gægðust út á milli leðurbanda sem héldu skónum á fæti konunnar. Ég þekkti þessa konu ekki og hélt að hún væri að safna fyrir einhver góðgerðarsamtök. Í mínum huga var hún sú manngerð sem vill helga hluta lífs síns góðum málefnum; ljósir lokkar, breiðleitt og opið andlit.
Þegar hún kom auga á mig breyttist einbeittur svipur hennar í eitt stórt gleðibros.
„Þarna ertu! Ég átti einmitt erindi við þig.“
Sennilega tókst mér ekki að dylja undrun mína og hef sett upp einhvern skelfingarsvip því hún flýtti sér að bæta við: „Þú verður alveg skelfingu lostinn!“ Mér til enn meiri undrunar skellihló hún.
Ég stundi einhverju upp og reyndi að hlæja með konunni.
„Ég er með svolítið handa þér. Ég sé að þú þekkir mig ekki en þú þekkir manninn minn (og hún nefndi nafn mannsins hennar en ég kveikti ekki á neinni peru – ég lét þó sem það logaði á öllum mínum perum).
„Já!“ sagði ég og reyndi að vera jafnákafur og þessi góða kona á háu hælunum.
„Hlustaðu nú. (Á þessum orðum hefjast mörg samtöl hér í Danmörku og einmitt þessi orð (hlustaðu nú) er merki um að maður eigi að einbeita sér því erindið sé brýnt.
„Ég sé þig næstum á hverjum morgni á hlaupum eftir Strandvejen.“
„Já,“ sagði ég og reyndi að einbeita mér að erindi konunnar.
„Ég sé að þú heldur alltaf á símanum þínum, hefur hann í hendinni þegar þú hleypur. Um þetta hef ég hugsað svo lengi og hve ómögulegt þetta er fyrir þig að hlaupa og halda á símanum.“
Þegar hér var komið sögu held ég að ég hafi verið eitt spurningarmerki. Hvað er að því að halda á sínum sínum þegar maður hleypur? Ég nota símann til að spila fyrir mig hljóðbækur eða músik á hlaupunum og hef ekkert á móti því að halda á honum enda ekki nema 30-40 grömm.
Nú tók konan töskuna sem hann hafði borið á öxlinni í fang sér, opnaði hana og tók upp einhvers konar vasa með ólum. „Sérðu hvað ég kem með handa þér. Þú setur símann þinn í þennan vasa og svo spennir þú þetta á handlegginn á þér. Þá þarftu ekki að halda á símanum. Á ég að sýna þér?“
Ég þóttist auðvitað himinlifandi yfir gjöfinni, sýndi þakklæti mitt, þótt ég viti að ég eigi aldrei eftir að nota þennan símavasa. Ég var snortinn yfir hugulsemi konunnar sem hafði fyrir því að leita mig uppi og færa mér símavasann. Einungis til að auka þægindi mín á hlaupum. Ég er bara ekkert fyrir hjálpartæki eða græjur.