Það er langt síðan ég hef komið til Parísar. Þannig er það að minnsta kosti í mínum huga. Ég hafði skipulagt ferð í Batman-íbúðina í mars og aftur í apríl og aftur í maí en vegna þess að París er illa leikin af útgöngubanni og öðrum kóróna-leiðindum hefur ekkert orðið af ferðalagi til stórborgarinnar af minni hálfu.
Satt að segja hafði ég hlakkað sérstaklega til ferðalagsins í maí. Mér hafði nefnilega verið boðið í göngutúr af frönskum rithöfundi sem ég heimsótti eitt sinn þegar ég dvaldi um stundarsakir í París. Boð rithöfundarins var óvænt og bar vott um einhvern hálfkæring eða galsa sem ég kannaðist vel við í fari hans frá fyrri kynnum okkar.
„… ég hef ákveðið að taka þig með mér í göngutúr næst þegar þú kemur.
Þetta er göngutúr sem mér hefur tekist að fullkomna því ég hef gengið sömu leið 18 sinnum á síðustu 18 dögum og útilokað það sem á leiðinni er óáhugavert og valið það sem vekur forvitni, bæði mína og ekki síður þína.
Við mælum okkur mót við endann á Avenue de la Soeur-Rosalie og göngum þaðan í átt til einskonar hringtorgs. Ef veðrið er gott getum við sest á bekk á milli trjánna. Yfirleitt er enginn inni í þessum litla garði, sem umgirtur er af hellulögðu hringtorgi, og því getum við talað frjálst enda enginn sem heyrir til okkar. Stundum situr þarna gamall maður á öðrum bekk en ég er vanur að setjast á, eftirlaunaþegi með hundinn sinn en hann skulum við halda okkur frá. Eftir að við höfum rabbað saman á bekknum get ég sýnt þér litla verslun þar sem hillurnar eru fullar af allskonar sérvöru frá mið-austurlöndum. Þar er til dæmis hægt að kaupa 8 mismunandi tegundir af hummus. Ef ég man rétt þykir þér hummus algjört lostæti …“
Lýsingin á þessum göngutúr er mun lengri og það voru ótal áhugaverð stopp á leið okkar. Göngutúrinn fæ ég vonandi að ganga með þessum mjóa rithöfundi næst þegar ég fæ tækifæri á að heimsækja borgina.
Í dag er 17. júní og af því tilefni ætlar útlaginn – ég – að hafa íslenska útvarpið í gangi. Nú er ég þegar búinn að hlusta á Ísland ögrum skorið í útsetningu fyrir málmblásturshljóðfæri.