Rottukjötið og kengúrumjólkin.

Í gær var 17. júní. Mikill hátíðisdagur hjá mér. Í fyrradag var 16. júní, svokallaður Bloomsday. En fyrir 117 árum, þann 16. júní 1904 spásseraði Leopold Bloom, aðalhetja Ulysses, nefnilega um götur Dublinar. Ég fór að hugsa um þetta þar sem ég er að ganga frá síðustu próförk að þriðju bókinni í hinni svokölluðu Álftabæjarseríu. Söguna læt ég gerast dagana 23.-26 apríl (árið er óvíst). Í lok apríl á að vera komið vor á Íslandi og birtustig kvöldanna veldur mér smá vandræðum því höfuðpersónur bókarinnar laumast út undir miðnætti og þurfa að leynast í myrkrinu.

En um leið og ég velti þessu fyrir mér veldur ein athugasemd míns stórkostlega fína ritstjóra mér heilabrotum. Ég læt Guðjón G: Georgsson (sem er barn og önnur aðalpersóna bókarinnar) halda því fram að í Kína sé rottukjöt í hamborgurum, í Ástralíu sé kengúrumjólk í vanilluísnum og í Egyptalandi séu bökuð brauð úr endurunnum pappa. Og svo kemur athugasemd frá mínum góða ritstjóra um kínverska rottukjötið. „Þetta er svolítið viðkvæmt,“ segir hún. „Þú gætir sært litla, kínverska vin minn.“ Auðvitað vil ég ekki særa lítinn, kínverskan vin og því skipti ég Kína út fyrir England og læt Guðjón G. Georgsson halda því fram að í Englandi sé ekta rottukjöt í hamborgurum. Ég er viss um að Englendingar hafi alveg húmor fyrir þessum saklausa misskilningi ungu, söguhetjunnar minnar.

Sannarlega er þetta klisja með rottukjöt og hundakjöt í Kína og fordómar um matarvenjur þessara meðbræðra okkar í austri. Því er ábending ritstjórans góð; að sneiða hjá fordómum og klisjum í sögunni. Það sem þetta minnti mig á – og mér þykir athyglisvert – er að nú á hinum síðari tímum eru ekki bara handrit heldur líka bækur lesnar til að finna fordóma. „Ég hef fundið fordóminn,“ sagði ung kona við mig um daginn og veifaði framan í mig bók eftir íslenskan rithöfund og áhrifavald. Ég sprakk úr hlátri.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.