Sumarfrí ekki sumarfrí?

Ég hef verið í fríi – sumarfríi eins og það er kallað. Þó bý ég við það góða frelsi að munur á fríi og ekki fríi er nánast enginn. Ég get með réttu, og góðri samvisku,  kallað dvöl mína á Íslandi í júlí og dagana á Ítalíu frídaga þar sem ég skrifaði ekki staf. Ekki einn staf. Ég svaraði varla tölvupóstum. En þess í stað var ég duglegur að lesa og ég verð að játa það hér og nú að þær bækur sem heilluðu mig mest voru bækur félaga míns frá París, mannsins með vatnsbirgðirnar, Michel Houellebecq. Ég hef gaman af ósvífni hans og hans óréttu pólitísku sýn. Þetta er hressilega ögrandi, framúrskarandi skáldskapur og algjörlega á skjön við það sem nú tíðkast – kannski sérstaklega hjá íslenskum rithöfundum: að feta hinn örugga skoðunarveg.

Ég las líka tvær íslenskar bækur. Bók Halldórs Armand, Bróðir. Ég hef hlustað á marga af útvarpspistlum hans sem hann flytur vel og mér hefur þótt hann áhugaverður pistlamaður. Ég las líka bók Dags Hjartarsonar, Við erum ekki morðingjar. Hingað til hef ég bara lesið ljóð Dags (sennilega er þetta fyrsta skáldsaga hans) og er í raun hrifnari af ljóðunum en skáldsögunni. Þessir tveir ágætu karlmenn eru augljóslega miklir efnispiltar.

Nú er bókmenntahátíðin í Louisiana safninu hér í Humlebæk og frábærir gestir væntanlegir. Í gær hlustaði ég á hina argentínsku Samöntu Schweblin og Jamaicu Kincaid frá Antiqua í karabíska hafinu. Báðar voru konurnar mjög sjarmerandi á sviðinu og skemmtilegar. Jamaica hefur svo mikinn sjarma að hún gat nánast leyft sér að segja hvað sem var án þess að maður yrði pirraður. Það var ekki alltaf samræmi í því sem hún sagði. Hún leyfði sér að fremja hálfgerðan heilaspuna, hún óð úr einu í annað þannig að erfitt var að fylgja þræðinum. Og ég var ekki alltaf sammála henni í greiningu hennar á stöðu heimsins. En skemmtileg kvöldstund. (Jamaica er oft nefnd sem væntanlegur eða vænlegur Nóbelsverðlaunaþegi.)

ps. Af langhlaupum: Ég hljóp í morgun 10,3 km. Þetta var skelfilega lélegt hlaup. Það var eins og ég hlypi á vegg eftir um það bil 7 km. Allt í einu var bara öll orka horfinn úr mínum langa kroppi og ég hægði ferðina ósjálfrátt. Þar að auki er ég að berjast við einhver eymsli í vinstri kálfa. Ég var svo þjáður (á maður ekki að segja það) síðasta kílómetrann að ég haltraði á hlaupum. Hér neðar í götunni mætti ég á endasprettinum háværa manninum, nágranna mínum, sem kallað á eftir mér:
„Det ser godt ud!“  (Ég veit ekki hvort það var kaldhæðni í röddinni.)
„Nej,“ svaraði ég og meinti það. Þetta hlýtur að hafa verið ámátleg sjón;  langur, haltur maður á hlaupum, lafmóður og svo gegnsveittur að hann dró  svitadropaslóð á eftir sér upp alla götuna. Skandall.

pps. Skýringin á þessu ömurlega hlaupi hlýtur að liggja í því að ég gleymdi algerlega að borða í gær.  Ég reiknaði út að ég hefði borðað eitt rúgbrauð, svolítið hvítkál með ólífuolíu, spælt egg og smá harðfisk. Þetta er ekki nóg fyrir mig. Eða kannski er sumarfrís hóglífið, með allan þennan mat, vín og bjóra að ná sér niður á mér?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.