Rúmlega níu fundargestir

Þegar ég horfi út um gluggann á vinnuherberginu mínu sé ég yfir hafið og alla leið til Svíþjóðar. Nú er morgunn og Svíþjóð er dökkur skuggi út við sjóndeildarhring, Nokkur sænsk fell rísa yfir haflínuna og ef mér skjátlast ekki eru hlíðarnar skógivaxnar. Það get ég ekki séð en ég ímynda mér að hlíðarnar í Svíþjóð séu skógivaxnar. Svíþjóð er ekki svo langt í burtu, en þó nógu langt í burtu til að vera bara dökkur skuggi. Sjálfur er ég langt í burtu frá þeim stað þar sem ég fæddist og fyrir þeim sem horfa á mig frá Íslandi er ég sennilega ekki annað en skuggi.

Nú eru liðin mörg ár síðan ég fór frá Ísland, lagðist í einskonar Ódysseifsferð með það markmið að finna nýtt heimili í stað þess sem ég hafði yfirgefið nokkru fyrr. Ég lagði upp í ferðalag án þess að vita hvar ég mundi enda. Ég tæki því sem að höndum bæri. Og nú er ég hér með glæsilegt útsýni yfir til Svíþjóðar.

Í gær fletti ég gömlu íslensku dagblaði – ég reyni að fylgjast með – og sá mynd af nýjum stjórnmálaleiðtoga, Gunnari Smára, sem hafði víst eftir handahófsval lent í efsta sæti splunkunýs stjórnmálaflokks sem berst fyrir sósíalísku Íslandi. Þegar ég virti fyrir mér myndina af skeggjaða stjórnmálaleiðtoganum kom til mín mynd af öðrum stjórnmálaleiðtoga, Þorleifi dúkara, sem bjó í Álftamýrinni eins og ég. Ég man að Þorleifur hafði, og hefur örugglega enn, sérkennilegt höfuðlag; stóran haus og ferkantaðan. Hann hafði þegar ég var ungur maður stofnað einhvern arm út frá kommúnistaflokki – held að það hafi verið maóískur armur – og hann hélt fundi á hverjum laugardegi klukkan 12.00 á skrifstofu flokksins. Þorleifur var ákafur í að vinna flokki sínum framgang og smalaði stíft á þessa fundi. Einu sinni var Þorleifur dúkari spurður um fundarmætinguna.
„Þorleifur dúkari, hve margir mættu á fundinn í dag?“
„Góð mæting,“ svarði Þorleifur dúkari, „ … rúmlega níu.“

Kannski eru líka rúmlega níu fundargestir hjá Gunnari Smára og hans pólitíska armi eða kannski tæplega 99. Ég veit ekki.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.