Tvö kíló af spiki.

Ég hef þyngst um tvö kíló í fríinu mínu. Það er ég ekki sérlega ánægður með en það er óhjákvæmilegt að fitna þegar maður borðar og drekkur of mikið. Þrátt fyrir alla mína hreyfingu (ég hljóp 155 km í ágúst) bættust þessi kíló á mig. Nú er fríinu lokið og ég er sestur við vinnu, hættur að borða óhollt og drekka bjór eða vín á nánast hverjum degi. Ef ég sit og skrifa þarf ég að vera í góðu líkamlegu formi. Ég verð að vera harður við sjálfan mig, borða minna og hollara  og hlaupa að minnsta kosti 100 km á mánuði.

Á þriðjudaginn fer ég til Paríasar. Ég ætla að dvelja í Batmaníbúðinni í viku og skrifa. Mig langar að skrifa eitthvað nýtt, þó ekki barnabók þótt mér hafi gengið það ágætlega. Mig langar að prófa að að fara aðrar leiðir. Ég er kominn í gang en eins og venjulega, þegar ég er kominn á skrið, lendi ég á vegg og veit ekki í hvaða átt ég á að fara. Í París er verkefnið að finna hina réttu leið.

Ég er þegar farinn að hafa áhyggjur af því hvernig ég fari að því að hlaupa af einhverju viti í París. Mér hefur dottið í hug að nota það sem Parísarbúar kalla high-line, göngubraut sem liggur á bak við óperuna. Þetta er upplyftur göngustígur sem liggur yfir götunum og því getur maður hlaupið án þess að þurfa í sífellu að stoppa við rauð ljós.

Venjulega er ég gífurlega taugaspenntur áður en ég legg af stað í svona skrifbúðir, ævinlega dauðhræddur um að mér verði ekki nógu mikið úr verki og að ég nýti vikuna ekki nógu vel. En nú er ég rólegri og ætla að njóta þess að vera í París og hugsa um verkefni mitt; að skrifa eitthvað mjög gott. Yo!

ps Myndin hér að ofan er af niðurníddu húsi sem varð á vegi mínum á Ítalíu. Ég tók mynd af húsinu því það minnti mig svo á hið fallna hótel, Grand Hotel des Bains, í Feneyjum þar sem Thomas Mann dvaldi á meðan hann skrifaði að ég held Töfrafjallið. Ég man að þegar ég kom til Feneyja og leitaði uppi hótelið varð ég ótrúlega uppnuminn að skoða þessa dapurlegu sjón sem hótelið var. Gjörsamlega yfirgefið, hræðilegt og að falli komið. Og nú heyri ég að Töfrafjallið sé að koma út í íslenskri þýðingu Gauta gangrýnanda Kristmannssonar. Það held ég að sé svakalega erfitt verk að þýða.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.