Good morning, doctor

Þegar japanska skáldið Haruki Murakami kom til Íslands á bókmenntahátíð árið 2003 lenti ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að keyra hann um Reykjavíkurborg. Konan hans, sem ég kynntist lítillega, var alltaf með í för. Murakami sat í framsæti gamla Mercedes Benz bílsins míns og konan hans kom sér alltaf vel fyrir í aftursæti bílsins. Hún hafði þann undarlega sið að liggja til hálfs þvert yfir aftursætið með hönd undir vanga á meðan hún hlustaði á samtal eiginmanns síns við unga ökumanninn.

Murakami, sem er lágvaxinn eins og margir landar hans, sat alltaf frekar sperrtur í framsætinu, jafnvel eins og hann væri tilbúinn að stökkva út úr bílnum á hverri stundu. Hann var ávallt klæddur bláum, tvíhnepptum jakka með gylltum hnöppum. Murakami var þögull í upphafi bíltúranna en þegar við höfðum keyrt um stund byrjaði hann oftar en ekki að segja frá einhverju sem virtist hafa fyllt huga hans.
„Fyrirgefðu að ég spyr,“ sagði hann einu sinni við mig. Ég leit á hann og það færðist þetta sérkennilega Murakamibros upp til augnanna. „Hefurðu lesið eitthvað af eldri bókum mínum?“
„Já. Fyrsta bókin sem ég las,“ svaraði ég, feginn að geta svarað játandi, „var bókin A Wild Sheep Chase“.
„Gaman. Ég er ánægður með þá bók. En útgefandi minn var hundóánæðgur þegar ég afhenti handritið. Forlagið gat ekki annað en gefið bókina út því fyrstu tvær bækur mínar höfðu gengið svo vel. En ég sá hvað gleðin við að útgefa skáldsögur eftir mig slokknaði þegar þeir fengu A Wild Sheep Chase í hendurnar. Þau höfðu búist við bók sem var hefðbundnari og ætti því betri sölumöguleika. En þeim skjátlaðist því bókin seldist afar vel og lesendur voru glaðir. Með þessari bók varð ég alvöru rithöfundur og ég tilkynnti með stolti  öllum sem ég hitti að ég hefði valið nýja leið í lífinu. Ég væri rithöfundur. Ég hætti að reykja. Ég fór alltaf að sofa fyrir klukkan 10 á kvöldin. Ég fór að hlaupa. En fyrst og fremst varð ég rithöfundur og viðbrögð forlagsins breyttu engu.“

Ég segi frá þessu hér þar sem í dag undirbý ég ferð mína til Parísar í fyrramálið. Þar, í Batmaníbúðinni, ætla ég að dvelja í sjö daga vinnubúðum – sitja daglangt við skriftir. Af því tilefni varð mér sem sagt  hugsað til þessa samtals okkar Murakami, því síðast þegar ég dvaldi í skrifbúðum í París gat ég ekki viðurkennt fyrir vinsamlegu, ungu, hipster-kaffihúseigendunum, sem ég hitti á hverjum morgni, að ég sæti við skriftir þegar þau spurðu mig við hvað ég starfaði. Í stað þess að gangast við því að nú sæti ég öllum stundum með pennann á lofti, sagði ég þeim að ég væri hjartalæknir. (Ég taldi mér trú um að það væri dulinn tilgangur skrifanna, að lækna hjörtu.) En eftir þetta samtal okkar hipsteranna heilsa þau mér enn í dag og hvern morgun með orðunum: „Good morning, doctor.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.