Ilmurinn af hjólakonunni

Fyrir framan húsið Strandvejen 134 mætti ég í morgun konu á hjóli. Hún hafði svarta headphones yfir eyrunum og var alvarleg og einbeitt á svipinn þegar hún mætti hinum langa hlaupara. Satt að segja tók ég ekkert sérstaklega eftir konunni en svörtu heyrnartólin hennar vöktu athygli mína. Ég var rétt kominn framhjá konunni þegar í kjölsogi hennar  gaus upp þessi sterka ilmvatnslykt, ekki vond, bara sterk og í einni andrá var ég dreginn marga áratugi aftur í tímann til sumarvinnustaðar í Þverholtinu sem ég hef ekki hugsað um síðan ég hætti þar. En þar vann einmitt kona – ég held að hún hafi verið einskonar framkvæmdastjóri (það gustaði að minnsta kost af henni) – sem lyktaði af nákvæmlega sama ilmvatni. Þessi lykt hefur ekki kitlað mitt stóra nef í öll þessi ár.

Mér brá svo mikið þegar ég fann lyktina að það lá við að ég stoppaði á hlaupum mínum – en það má  ekki þegar maður er langhlaupari – til að sjá hvort þarna hjólaði  framkvæmdastjóri sumarvinnustaðarins í Reykjavík, nú komin til Danmerkur og búin að kaupa sér svört heyrnartól. Ef þetta var hún hefur hún haldið sig við sama ilmvatnið í mörg ár. En ég hef ekkert svar, ég veit ekki hver konan var.

ps. Hvað ætli hafi orðið um austurríska rithöfundinn Patrick Süskind sem skrifaði bókina Ilminn? Hann virðist líka horfinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.