Þér er velkomið að þykja ég óþolandi. Gerðu svo vel.

Ég byrja morguninn á því að vakna en spekúleraði jafnframt í því hvort ég hefði ekki verið löngu vaknaður þegar ég vaknaði.
Ég fór ekki í sturtu  heldur læddist niður tröppurnar með fötin í hendinni til að vekja engan. Hér eru allir á heimilinu veikir. Ég er ekki veikur.
Ég gaf köttunum að borða, báðir voru svo svangir að þeir gleyptu í sig matinn með græðgishljóðum. Ég sagði þeim að reyna að borða aðeins hægar og ekki með þessum hljóðum.
Ég gekk út, fyrst fór ég auðvitað í skó, og hélt í átt til apóteksins sem ég vonaði að væri opið. Það var lokað eins og mig grunaði.
Ég gekk til baka og valdi sömu leið og ég kom.
Ég tók eftir því að ungur faðir sagði við barn sitt sem var á leið út úr bíl að í dag væri fimmtudagur. Í fyrstu hélt ég að honum skjátlaðist því í dag væri mánudagur. En þegar ég hugsaði mig um áttaði ég mig á að smábarnapabbinn hafði rétt fyrir sér, það var í raun og veru fimmtudagur.
Ég settist á bekk og beið þar til klukkan yrði átta. Tíminn leið, klukkan varð átta og ég stóð upp af bekknum. Aftur gekk ég af stað, nú til læknahússins hér í bænum. Þar starfar læknirinn Jósef.
Ég hafði varla sest niður á einn af mörgum, rauðum stólum sem eru á læknabiðstofunni þegar nafn mitt var kallað. Ég hafði enn ekki sagt eitt einasta orð þennan dag og nafnið mitt var fyrsta orðið sem beint var til mín í dag.
Ég heiti Snæbjörn og ég hitti fyrir skömmu konu sem vildi breyta nafni sínu svo að nafn hennar væri sagnorð. Ég man ekki hvað hún hét eða hvað hún vildi heita þótt ég reyni mjög að rifja það upp. Ég gæti sagt að nafnið mitt sé nafnorð, Snæbjörninn, en ef það væri sagnorð héti ég kannski Snæbjarna, sögnin að snæbjarna eitthvað.
Ég settist á stól fyrir framan hjúkrunarfræðing og ég sagði henni um leið og hún (hjúkrunarfræðingurinn var kona) pumpaði blóði úr handleggnum á mér að ég félli mjög auðveldlega í yfirlið þegar ég sæi blóð – ég hefði auðvitað getað þagað yfir því – og að það hefði oft gerst.
Ég bætti því við að ég hálfskammaðist mín fyrir þennan veikleika en hún sagði að það ætti ég ekki að gera. Þessi sami kvilli hrjáði einn af hverjum fimmtán sem hún tæki blóð úr eða sprautaði.
Ég kvaddi hjúkrunarfræðinginn þegar hún hafði fullvissað sig um að ég mundi ekki falla í yfirlið á leiðinni út.
Ég fór aftur upp í apótek og nú var opið. Ég keypti svo margar vörur að afgreiðslukonan spurði mig hvort ég vildi poka – ég gat valið á milli bréf- og plastpoka – til að bera vörurnar í. Nei, takk, svaraði ég og byrjaði að troða vörunum í vasa mína. Ég var í grænum frakka með tvo djúpa vasa.
Ég kom heim í sofandi hús og hellti mér upp á kaffi.
Ég drakk tvo kaffibolla við eldhúsborðið, drakk eitt glas af vatni úr gulu glasi og ristaði mér brauð sem ég smurði með gráðosti. Það var þögn í eldhúsinu.
Ég hugsaði um bókina mína sem á að koma út í haust á meðan ég tuggði brauðið og velti fyrir mér hvort það væri þess virði að gefa hana út, en ég ákvað markvisst að ég ætti ekki að hugsa um það.
Ég byrjaði á nýrri hugsun: Í gær sagði kona við aðra konu: Þér er velkomið að þykja ég óþolandi. Gerðu svo vel.
Ég tæmdi uppþvottavélina og reyndi að gera það hljóðlega.
Ég leit á klukkuna. 08:41
Ég reiknaði: 111 mínútur liðnar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.