Í morgun ákvað ég að taka gamalt skáld frá Jótlandi mér til fyrirmyndar og borða í morgunmat jógúrt með musli.
Knud Sørensen er 94 ára og býr á þeim stað í Danmörku þar sem vestanvindarnir geysa og öll náttúran ber merki námundans við Vesturhafið; trén halla sér í austur.
Í dagblaðinu í gær var stutt viðtal við hið aldna skáld, í viðtalsflokki sem fjallar um áhrif kórónafaraldursins á daglegt líf fólks. Ég varð satt að segja töluvert snortinn af þessu einfalda viðtali. Kannski af því að einlægni og fölskvaleysi þessa gamla manns er svo sjaldséð í opinberri umræðu.
Hér fyrir fáum árum, sagði skáldið, var ég oft fenginn á samkomur til að lesa ljóð en nú er ég háður því að einhver sæki mig og skili mér aftur heim. Ég kem því sjaldan á samkomur núorðið. En á hverjum degi geng ég í tuttugu mínútur. Ég er því miður orðinn svo óstöðugur á fótunum að ég verð að feta mig meðfram girðingunni og styðja mig við hjólastatíf. Áður fyrr gekk ég alltaf langa göngutúra niður að hafinu. Því hafið og náttúran var mér innblástur. Ég hef alltaf ort um náttúruna og landið. Um landbúnaðinn. Ég á skáldavin sem yrkir líka um landið og náttúruna og mér finnst við tala sama tungumál. Nú les ég bækurnar hans. Ég byrja þó alla morgna á því að fá mér jógurt sem ég helli yfir musli.“
Svona talaði þessi gamli maður og mér fannst hann svo göfugur. Ég ákvað að reyna að þroskast í þá átt að ég verði jafn göfugur og þessi gamli maður. Fyrsta skrefið er að byrja að borða jógúrt ofan á musli í morgunmat. Það er ansi lítið skref.