Hin stóra mynd

Einu sinni heyrði ég sögu af manni sem leiddur var inn í koldimmt herbergi. Inni í herberginu var fíll. Þegar maðurinn kom út var hann spurður hvað hefði verið inni í herberginu. „Það var slanga,“ sagði maðurinn enda hafði hann þreifað á rana fílsins. Annar maður var leiddur inn í koldimma herbergið þar sem fíllinn stóð. Þegar hann kom út var hann spurður hvað hefði verið inni í herberginu. „Það var risabananatré, með stórum blöðum,“ sagði maðurinn sem hafði þreifað á eyra fílsins. Þriðji maðurinn var leiddur inn í herbergið og var spurður hvað hefði verið inni í herberginu. „Inni í herberginu hanga sterkir kaðlar niður úr loftinu,“ sagði sá þriðji en hann hafði togað í hala fílsins.

Ég man ekki hver sagði mér þessa sögu en lærdómurinn átti víst að vera að auðvelt sé að misskilja heiminn þegar maður dæmir út frá litlum hluta af heildarmyndinni. Um þetta hugsa ég stundum. Ég hef svo sem ekkert sérstakt tilefni til að brjóta heilann um þetta akkúrat núna þegar ég sit hér og undirbý dagskrá dagsins. En sennilega er gott að hafa þetta í huga áður en maður fer að gaspra.

Auðvitað er öllum frjálst að taka þetta til sín en ég frábið mér að ég sé ásakaður um að vera með pillur út í fólk.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.