Vísindaskáldsögur hafa aldrei náð að vekja áhuga minn … fyrr en í gær. Af einhverri rælni sá ég í gærkvöldi heimildarmynd um Olgu Tokarczuk, Nóbelsverðlaunahafann í bókmenntum. Hún sagði frá Philip K Dick sem er frægur vísindaskáldsöguhöfundur og hún tók fram að hann væri hennar stóri áhrifavaldur og uppáhaldshöfundur. Nú langar mig að lesa Philip Dick.
Þetta minnti mig á annan vísindaskáldsögumann, Douglas Adams, (Hitchhikers Guide to the Galaxy) sem hélt því fram að (ég man ekki nákvæmt orðalag):
- Allir þeir hlutir sem eru til í heiminum þegar þú fæðist eru eðlilegir og venjulegir og hafa sitt náttúrlega hlutverk í því að láta heiminn ganga sinn gang.
- Allt það sem er fundið upp á meðan þú ert á aldrinum frá fimmtán til þrjátíu og fimm er nýtt, spennandi og byltingarkennt og þú getur væntanlega fengið starf og frama innan þess geira.
- Allt sem er fundið upp eftir að þú ert þrjátíu og fimm ára er andstætt náttúrulegri þróun hlutanna.