12. október rennur upp. Hann er ekki í dag.

Það væri kannski fölsk lýsing á veruleika mínum ef ég minntist hér ekki einu orði á bók sem ég skrifaði í fyrravetur og er væntanleg til Íslands innbundin og fín, frá þýskri prentsmiðju í október því mér verður oft hugsað til bókarinnar og vinnunnar við útgáfu hennar. Ég veigra mér samt sem áður að nefna bókina við nokkurn mann.  En í gær fékk ég vita að útgáfudagur Handbókar gullgrafarans (það er titillinn), hefði verið ákveðinn þann 12. október 2021. Ég vildi að ég gæti sagt að þessi dagur verði sami tímamótadagur í sögu bókmenntanna  og 26. júní 1997 þegar fyrsta Harry Potter bókin kom út.

Oft hefur því verið haldið fram að rammi glæpasagna sé svo þröngur og í svo föstum skorðum að glæpasögurnar geti ekki endurnýjað sig; allt hafi verið reynt og nýjar glæpasögur verði bara endurtekning á eldri glæpasögum. Ég les núna bók Arnaldar Indriðasonar, Einvígið og ég get dáðst að mörgu í bókinni en ég get þó ekki sagt að um frumlega glæpasögu sé að ræða. Fyrir nokkrum árum borðaði ég morgunmat á sænsku hóteli með sænska rithöfundinum Håkan Nesser. Håkan skrifar glæpasögur og mér finnst hann, þegar honum tekst vel upp, vera heimsins besti glæpasagnahöfundur. Og ég get sagt með góðri samvisku að mér finnst honum stundum takast að sprengja ramma glæpasögunnar og flytja hana inn á annað svið.

Það var sumardagur þegar við hittumst á sænska hótelinu, það man ég því það var óvenju bjart í veitingasalnum. Morgunsólin skein inn um gluggana og hvítdúkuð borðin urðu svo skjannahvít að maður fékk nánast ofbirtu í augun. Fyrir utan gluggann sá ég niður að lítilli smábátahöfn þar sem siglingafólk í stuttbuxum var komið á stjá og stússaði eitthvað í bátum sínum.

Ég hafði ekki hugmynd um að við rithöfundurinn værum á sama hóteli þennan sumardag. Ég hafði átt nokkra daga erindi til Stokkhólms og hann hafði verið í Stokkhólmi til að hitta forleggjara sína hjá Bonniers. Hvaða erindi hann átti við forleggjara veit ég ekki. Ég hafði setið um stund við borð í veitingasal hótelsins með kaffibollann minn og ristað brauð. Væntanlega hef ég verið niðursokkinn í einhverjar gáfulegar hugsanir þegar ég varð skyndilega var við að yfir mér stóð hávaxinn maður. Ég leit upp og þá var sagt á sérkennilega fallegri ensk-sænsku: „Good morning, dear publisher.“ (Þetta var á þeim árum sem ég gat kallað mig útgefenda). Þarna stóð Håkan með kúfaðan disk; ótalmargar kokteilpulsur og spælt egg. „Good morning, dear writer,“ svaraði ég. Og svo settist hann hjá mér. Ég kann vel við þennan góðviljaða og kurteisa mann.

Ég segi frá fundum okkar Håkans hér því í gær þegar ég var að vandræðast yfir sjálfum mér varð mér hugsað til samtals okkar við morgunverðarborðið. Eitt af því sem bar á góma voru vinnuaðferðir rithöfundarins sem er sérstaklega afkastamikill. Hann sagði mér frá því að hann hefði bara eina aðferð til að komast áfram í skrifum sínum. Á hverjum morgni fór hann út að ganga með hundinum sínum. Gönguferðin tók hann um það bil klukkutíma. „Ég reyni að skrifa einn kafla á dag,“ sagði hann og í  þessari gönguferð hugsaði hann um þann kafla sem hann ætlaði að skrifa næst; teiknaði upp senuna, hvaða persónur komu við sögu, hvar og hvernig þær stóðu í afstöðu hver til annarrar, hvað þær sögðu, hvernig ljósið var í senunni, hvaða lykt umlukti fólkið og ekki síst hvernig það hreyfði sig í rýminu og hvernig afstaða þess hvers til annars þróaðist (kórógrafía kaflans, eins og höfundurinn orðaði það). Ég man hvað mér þótti bæði heillandi að heyra um þessa göngutúra og samningu bókarkaflans (sérstaklega þetta með hreyfingar fólks innan kaflans) og mér þótti líka heillandi að sjá hvað þessi langi maður gat sporðrennt ótrúlega mörgum pulsum svona snemma dags.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.