Það sem svífur í loftinu

Ég las í nótt í bók sem ég hef haft mjög lengi á náttborðinu hjá mér enda er bókin 747 blaðsíður með smáu letri og litlu línubili. Bókin heitir Samlede værker og er eftir ungan, sænskan rithöfund Lydiu Sandgren (fædd 1987). Bókin vann stærstu bókmenntaverðlaun Svía í fyrra Augustprisen. Mér finnst bókin góð og ég velti því töluvert fyrir mér hvað geri þessa bók svo góða í mínum huga. Textinn er afar hversdagslegur, langar lýsingar á samskiptum fólks og sagt frá smávægilegum atburðum í löngu máli. En mér finnst þetta skemmtilegt bók.

Já, það var nótt þegar ég byrjaði aftur að lesa Samlede værker. Bókina hef ég ekki litið í síðan fyrir sumarfrí. Ég gat ekki tekið þennan bókarhnullung með mér í handfarangri til Íslands og Ítalíu í sumar því bókin hefði bæði fyllt töskurými og verið of þung. En hvað um það ég er farinn að taka upp á því að vakna um miðjar nætur og vaka tímunum saman. Kannski er ég kominn inn í eitthvað aldursskeið þar sem líkaminn vill vaka um miðjar nætur.

Nú er Sus að heiman – sinnir fjölskyldumálum á Jótlandi – og ég ligg því einn í rúminu og get kveikt ljós þegar ég vakna í næturmyrkrinu. Það gerði ég í nótt. Ég kveikti ljós, leit á klukkuna, 02.44, og fór að lesa í Samlede værker. Ég hafði lesið í tæpa tvo tíma þegar á mig sótti syfja að nýju. Ég ætlaði því að leggjast til svefns en ákvað að kíkja á símann minn – þrátt fyrir þá reglu sem ég hef að líta aldrei á símann um kvöld og nætur – því ég sá að símaskjárinn lýsti aftur og aftur sem er merki um að einhver sé að senda mér tölvupóst eða SMS. Virknin í símanum var svo óvenjulega mikil að ég stóðst sem sagt ekki freistinguna til að athuga hvað fólk vildi mér um miðja nótt. Ég get upplýst hér og nú að það var ekkert merkilegt og ég gat farið rólegur að sofa. Þó var einn tölvupóstur sem ég eyddi löngum tíma í því þar  var Kastljósþáttur gærkvöldsins í viðhengi – Kastljósviðtal vil formann KSÍ, Guðna Bergsson. Mér hafði verið bent á að á hinum svokölluðu samfélagsmiðlum grasseri umræða um meint ofbeldisverk knattspyrnulandsliðsmanna. Ég hef ekki fylgst með þeirri umræðu svo ég ákvað að horfa á Kastljósþáttinn þar sem þessi meinta ofbeldishegðun landsliðsmannanna var meðal annars til umfjöllunar.

Ég segi það strax að ég sá eftir að hafa varið næturstundunum í að horfa á þennan þátt. Ég varð eiginlega bara leiður og hugsaði með mér að ég hefði frekar átt að lesa lengur í Samlede værker það ætti betur við mig en að reyna að fylgjast með því sem svífur í loftinu á Íslandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.