Ég finn að ég verð tilfinningasamari, aumari og meyrari með árunum. Minnsta tilfinningarrót gerir mig klökkan og ég þarf oftar en áður að berjast við tárin. Meira aumingjavolið á manni. Í gær var jarðarför tengdaföður míns og mér fannst sálmarnir sem voru sungnir fallegir og það gerði mig enn hrærðari á þessari kveðjustund.
En nú er kominn nýr dagur. Það er sunnudagur og morgnarnir hér á sunnudögum líða hægt. Ég ver löngum stundum yfir helgarblöðunum, kaffinu mínu og hafragrautnum áður en ég fer út og hleyp mitt langhlaup. Í dag las ég viðtal við sænsku skáldkonuna Karin Smirnoff sem hefur skrifað áhrifaríkan þríleik sem gerist í norður Svíþjóð þar sem höfundurinn er sjálfur uppalinn. Þetta var mjög gott viðtal og ég hugsaði oft þegar ég las að þetta fólk sem er alið upp fjarri hringiðu borganna hafi bara önnur tengsl við sjálft sig og náttúruna. Það er ekki svo upptekið af sjálfsmynd sinni, sínu eigin egoi. Það er svo fjarri þessari góðu konu að sviðsetja sjálfa sig. Það var léttir að mæta þarna á síðum dagblaðsins ærlegri konu sem er fyrst og fremst áhugasöm um mannlegt eðli og veikleika. Hún lætur ekki eigin fáfengileika skyggja á þann áhuga. Þessi ósentimentala jarðtenging er ansi sjarmerandi.
Bækur Karin Smirnoff eiga væntanlega ekki eftir að koma í íslenskri þýðingu, því miður. En ég sá að fyrsta bókin í þríleiknum, Brother, er komin út í enskri þýðingu.

ps. Karin Smirnoff, sem starfaði lengi við blaðamennsku, rekur timbursölu meðfram ritstörfum sínum sem hún keypti þegar hún var orðin þreytt á blaðamennskunni .
pps. Karin Smirnoff hefur svarta beltið í karate.