Vinsemdin

Maður kom hlaupandi eftir gangstétt í svörtum stuttbuxum og með gula hlaupaskó á fótunum. Hann hljóp hratt og íþróttamannslega. Hinum megin við götuna gekk maður í andstæða átt með hund í bandi. Maðurinn var gráhæður og hundurinn hans var hvítur. Báðir voru mennirnir á miðjum aldri, hundurinn var yngri.

Þegar hlauparinn sá manninn með hundinn hraðaði hann sér yfir götuna, slökkti á hlaupaúrinu sínu og nam staðar til að tala við manninn með hundinn. Þeir skiptust á nokkrum orðum. Maðurinn með hundinn var niðurlútur á meðan hann talaði – sagði augljóslega eitthvað alvarlegt – en hlauparinn hlustaði einbeittur, kinkaði ákaft kolli og svo lagði hann hönd sína ofurblítt á bringu mannsins með hundinn eins og til að ylja hjarta hans en hina höndina lagði hann á upphandlegg hans og strauk honum í huggunarskyni.

Þetta er vinsemdin, hugsaði ég á meðan ég fylgist með mönnunum tveimur. Eftir að hafa orðið vitni að þessari vinsemd sá ég hana allsstaðar; bíll stoppaði til hleypa fólki yfir götuna, veitingahúseigandinn á horni Strandvejen og Mørdrupvej aðstoðaði unga konu að bera barnavagn inn í bíl, maður hélt dyrum opnum í bakaríinu fyrir næsta viðskiptavin. Alls staðar birtust þessar litlu athafnir sem sýndu vinsemd.

Í verkum okkar birtist vinsemdin og hún skín í gegnum orðin sem við notum. „Gangi þér vel, farðu varlega, taktu því bara rólega, góða ferð, góða nótt. Þetta eru einfaldir frasar sem krefjast ekki neins en þeir streyma frá vinsemdarbrunninum sem við berum inni í okkur. Ég vil að þú hafir það gott, hver sem þú ert.

Við þörfnumst vinsemdarinnar og við sýnum hana eins og hún sé sjálfsagður hlutur, án þess að hugsa. Augu mætast, bros, það er þakkað. Þakka þér kærlega fyrir. Vinsemdin er sálarvítamín, næring sálarinnar og heldur sálarljósinu logandi. Það væri óvitlaust að hugsa um vinsemdina því hún er mikilvæg. Sumir velja sýna bara sumum vinsemd en að öðrum snúa þeir sinni köldu ásjónu. En hvað gerist í samfélagi ef vinsemdin hverfur og hvað verður þá um mennina?

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.