Þetta ætlar ekki alveg að vera minn dagur. Um leið og ég settist niður við tölvuna – eftir morgunmat og leikfimi – með kaffibolla í annarri hendi og penna í hinna tókst mér að hella kaffinu mínu yfir lyklaborðið á tölvunni, yfir bækur og blöð. Allt skrifborðið á floti í kaffi. Æ, slæm byrjun á vinnudegi.
Þar að auki bíður mín verkefni sem ég hef kviðið mjög fyrir. Á heimilinu eru tveir kettir. Annar, Gattuso, er stór 8 kílóa skógarköttur og er frekar sérsinna. Hinn, sem aldrei hefur fengið nafn, virðist aldrei ætla að hætta að vera kettlingur. Hann er saklaus og hefur barnalegan hugsunargang. Hér á heimilinu er stóri kötturinn er kallaður „den ægte“ og sá litli er kallaður „den falske“. Í dag eiga þeir báðir að fara í sprautu til dýralæknisins og það er minn mikli hausverkur. Báðir verða kettirnir viti sínu fjær af hræðslu þegar þeim er troðið inn í bíl og inni hjá dýralækninum tekur ekki betra við. Ég neyðist til að fara tvær ferðir til dýralæknisins, með einn kött í einu, fyrst klukkan 11:00 og svo klukkan 13:00.
Dýralæknirinn hefur klínikina sína hér í smábænum en hún er í hinum enda bæjarins, langt í burtu frá heimili mínu og kattanna. Síðast þegar ég fór með Gattuso, den ægte, tók það mig 30 mínútur að reyna að koma honum inn í dýrabúr sem maður notar til að flytja kettina í. Ég gafst upp því mér var gersamlega ómögulegt að fá köttinn inn í búrið; hann barðist svo hetjulega. Ég varð því að hafa hann lausan í bílnum, grenjandi og æmtandi. Ekki tók betra við þegar ég hafði lagt bílnum fyrir utan hjá dýralækninum og ætlaði að veiða köttinn út úr bílnum en þá tókst honum að skjótast framhjá mér og út á götu.
Þegar ég horfði á eftir Gattuso skokka eftir götunni burt frá bílnum greip mig mikil örvænting því ég var viss um að ef ég týndi kettinum mundi hann aldrei rata aftur heim. Ég reyndi því að kalla köttinn til mín með blíðum rómi um leið og ég veitti honum eftirför upp götuna. En Gattuso lét ekki glepjast af köllum mínum heldur hálfhljóp í burtu frá mér. Hann var í þann mund að stinga sér inn í runna og inn í einhvern lokaðan garð þegar mér tókst á síðustu stundu að grípa í skottið á honum og draga hann til mín.
Nú bíður mín sem sagt mín mikla martröð, mín hryllingsheimsókn til dýralæknisins.