Ég hef talið mér trú um að ástæða þess að ég tapi stundum tennisleikjum, sem ég ætti að vinna, sé að mig vanti svokallað killer instinct, ég fari of auðveldlega að vorkenna þeim sem eru að tapa. Svona sé ég heiminn.
Í sumar var ég á litlu hóteli á Ítalíu þar sem tennisvöllur var í hótelgarðinum. Ég notaði auðvitað tækifærið og spilaði tennis við Davíð og ég á auðvelt með að leyfa mér að vinna hann því mér finnst það hluti af uppeldi að gersigra börnin mín í leikjum sem ég er betri í. Við spiluðum í sólinni og ég tók eftir að maður með sólgleraugu stóð álengdar og fylgdist með kappaleik okkar feðga.
Svo kom kvöld, við borðuðum dýrindis máltíð á hótelinu og fórum að sofa. Allt var gott. Næsti morgunn fæddist og ég vaknaði glaður. Ég var rétt kominn fram úr rúminu þegar bankað var á herbergisdyrnar hjá mér. Ég opnaði. Fyrir utan stóð þessi sami maður og ég hafði séð daginn áður fylgjast með tennisleik okkar Davíðs. Maðurinn með sólgleraugun. Mér datt strax í hug að hann væri njósnari frá CIA, þessi svörtu sólgleraugu og alvarlegur munnsvipur, nánast fýlulegur.
„Good morning, sir, sorry disturbing you …“ sagði hann á afar hraðmæltri amerísku. Orðin komu út úr honum áður en hann náði að opna og loka munninum. Hreyfingarnar komu löngu eftir að hann hafði lokið máli sínu. Svo hratt talaði hann.
„No worries,“ sagði ég og beið eftir að þessi ameríski maður bæri upp erindi sitt. Ég var forvitinn að heyra hvað hinn hraðmælti fulltrúi CIA vildi mér.
Fljótlega kom í ljós að maðurinn var sérstaklega áhugasamur um að spila tennis við mig og gaf til kynna að hann væri leikinn tennisspilari og keppni okkar á milli gæti verið spennandi athöfn. Ég varð satt að segja undrandi yfir þessari skemmtilegu áskorun en efaðist þó um að rétt væri að eyða morgninum á þessu góða sveitahóteli í tennisleik þegar morgunmaturinn beið og það er algert uppáhald hjá Sus að sitja lengi og rólega yfir góðum morgunmat. Ég vildi síður eyðileggja þá ánægju fyrir henni þótt mér þætti freistandi spila við þennan mann í CIA gervinu.
Skemmst er frá því að segja að Sus nánast ýtti mér af stað til að spila við fulltrúa USA. Strax á tennisvellinum byrjaði hann að hrópa allskyns ameríska frasa sem ég skyldi ekki alltaf. En megininntakið var einskonar lýsing á slögum okkar og hreyfingum sem honum fannst meira en stórkostlegar. Og svo hófst sjálfur leikurinn og ég byrjaði vel. Fyrsta sett: 1-0. Annað sett: 2-0. Þriðja sett: 3-0. Fjórða sett: 4-0.
Og ég fór að vorkenna manninum sem hafði komið svo glaður til mín, blés tennisgetu sína upp og ég fann að ég slakaði á þótt ég reyndi af miklum vanmætti að snúa hugsanagangi mínum við. „Ekki vorkenna honum,“ hugsaði ég en mér tókst ekki að sannfæra sjálfan mig og á endanum tapaði ég fyrir fulltrúa CIA á Ítalíu 4-6. Ég skammaðist mín. Ég dauðskammaðist mín þegar ég gekk lúpulegur að morgunverðarborðinu þar sem Sus sat og sagði henni og Davíð að ég hefði tapað. Auðvitað gat ég ekki afsakað mig með þessum lummulegu sálfræðiskýringum sem ég hef lýst að ofan.
Ég segi frá þessu hér því í gærkvöldi kom til mín áskorun um að spila tennis. Jesper K. vildi spila morguntennis og frá því að ég vaknaði tautaði ég með sjálfum mér: Ég drep hann. Ég geng frá honum. Ég jarða hann. Mér tókst að skrúfa sjálfan mig upp í þvílíkan ham að ég var hálffroðufellandi þegar leikurinn hófst klukkan 08:00. Ég ætla ekki að gorta yfir úrslitunum en ég get upplýst hér með góðri samvisku að ég hefði ekki skammast mín hefði ég sest við hlið Sus til að borða morgunmat með henni eftir leikinn. En hún var hjá tannlækninum svo ég naut þess að sitja einn í minni sigurvímu, mínu testósterónbaði.