Ég á meira en sjö eða á ég segja rúmlega sjö minnisbækur. Þær eru misstórar, ein kemst í vasa, en hinar eru of stórar til að ég geti haft þær meðferðis í jakkanum mínum. Í þessar bækur skrifa ég athugasemdir, lími inn myndir, færi inn samtöl sem ég verð vitni að, set upp reiknisdæmi, skrifa forritunarkvóta, afrita fallegar setningar úr bókum sem ég les …
Stundum lít ég í þessar minnisbækur og oft skil ég ekki alveg hvað ég hef verið að hugsa þegar ég hef fært bókstafi, tölur eða myndir inn í bækurnar mínar. Ég rakst á færslu í stórri minnisbók sem ég á undir yfirskriftinni: „PARÍS 17. til 24. ágúst 2021“ Ef ég vissi ekki betur hefði ég haldið að ég hafi verið staddur í frönsku höfuðborginni þessa daga; frá þriðjudegi til þriðjudags í ágústmánuði árið 2021. En það var ég ekki. Nákvæmlega þessa daga var ég annars vegar í Espergærde, núverandi heimabæ mínum, og hins vegar í Horsens fæðingarbæ Sus.
Ég minnist á þetta hér þar sem ég er enn að hugsa um athugasemd sem ég skrifað fyrir löngu í eina af hinum stærri minnisbókum mínum en ég get ekki munað hver var kveikja að þessari færslu. Er þetta samtal tilbúningur eða hef ég orðið vitni að þessum orðaskiptum. Hverjir tala saman?
Karlmaður: Ég trúi á Guð, ég efast ekki, en býst ekki við að ég muni nokkurn tíma skilja ásetning hans. Ég segi alltaf að Guð er þar sem tónlistin er. Og ég er viss um að hin stóru tónskáld tjá okkur hvernig þau finna fyrir Honum. Þetta er ekkert kjaftæði í mér. Í mínum huga er Bach … ja …
Kona: En þú efaðist samt einu sinni.
Karlmaður: Ekki um Bach.
Kona: En um Guð, þú efaðist um Guð.
Karlmaður: Nei, allt það röfl heyrir fortíðinni til, það er horfið. Ég hef ekki lengur orku til að velta vöngum um efa og trúleysi og annað slíkt.
Kona: Gerðist eitthvað sérstakt sem fékk þig til að hætta að efast.
Karlmaður: Það gerðist smám saman og hin síðari ár hefur tilfinning mín fyrir Guði og vilja hans verið mjög sterk … og ég get gengið hér út á hlaðið, horft á hafið, upp í skýin og fundið fyrir þessari sterku nærveru.