Frægðin er beina leiðin til helvítis

„Ég hef tekið eftir að alvöru listamaður getur lifað nánast hvað sem er af. Meira að segja hrós … held ég.“ Þetta sagði J.D. Salinger einu sinni en hann varð skyndilega mjög frægur fyrir bók sína Catcher in the Rye (Bjargvætturinn í sefinu í þýðingu Flosa Ólafssonar). Ljós frægðarinnar er í hugum margra listamanna orkugjafinn sem tryggir líf og tryggir að heimurinn hvorki gleymi þeim, né líti framhjá listaverkum þeirra. Þetta er þó ekki alveg í samræmi við það sem stjörnurithöfundurinn Sally Rooney heldur fram: Frægðin er beina leiðin til helvítis.

Ég segi frá þessu hér af tvennum orsökum. Um daginn var boðuð útkoma ævisögu hins bandaríska rithöfundar Philip Roth: The Philip Roth We Don’t Know. Samkvæmt gömlum bréfum sem birt eru í þessari nýju bók kemur í ljós að höfundurinn hefur verið ósvífinn, kaldur og raun gert nánast hvað sem var til að láta frægðarljósið beinast að sér, hreppa bókmenntaverðlaun og fá jákvæða opinbera umsögn. Hann nýtti tengslanet sitt – þá var ekkert facebook til að rækta það – í þessum tilgangi. Hann skyldi alltaf vera sviðsljósinu miðju, og hann gleymdi ekki að launa gott umtal eða greiðasemi. Hann hjálpaði þeim sem gátu hjálpað til að ýta undir frama hans. Passaði að droppa réttum nöfnum á réttum stöðum. Og varð gífurlega móðgaður ef einhver talaði gegn honum. Metnaður Philip Roths var skýr: Hann vildi fá viðurkenningu, verðlaun, frægð og honum tókst næstum að hljóta Nóbelsverðlaunin.

Sally Rooney segir hins vegar í nýlegu viðtali: „Í barnaskap mínum hélt ég að hinn mikli rithöfundur hugsaði einungis um listina, listina sjálfa, hinar miklu kröfur sem hún gerði, og það væri hans eina áhyggjuefni.“

Hin ástæða þessa fjas í mér um frægðina og ljóma kastljóss frægðarinnar er nýfengið frelsi. Síminn minn hefur í marga mánuði sent til mín tilkynningar frá Facebook og Instagram um hverjir eiga afmæli og hverjir setja póst inn á síður þessa miklu valdhafa í lýðræðinu. Mér var farið að ofbjóða svo mjög, meðal annars hvað ákveðinn rithöfundur setti inn margar færslur á dag á Instagram og Facebook (sami eigandi, væntanlega til að auka frægð sína) og að mér væri sífellt tilkynnt um þessar athafnir ásamt öðru. Ég hafði satt að segja minna en engan áhuga á færslunum. Ég fór að kvarta undan þessu við unga syni mína og þeir bentu mér á að ég gæti auðveldlega slökkt á tilkynningunum. Sá möguleiki hafði mér ekki dottið í hug og þvílíkur léttir þegar mér tókst að slökkva. Takk.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.