Aulabárðarnir

Mér varð hugsað til orða konu vinar míns í gær þegar ég kom heim úr langhlaupi morgunsins. Satt að segja veit ég ekki hvað gerðist en ég hljóp óvenjuhratt. Setti persónulegt hraðamet, og sló fimm ára gamalt met (skv Strava-hlaupaappinu) á leiðinni milli Il Divino og Snekkersten. Að loknu hlaupi var ég því að rifna úr stolti. Ég hlakkaði svo mikið til að segja Sus og Davíð frá þessu nýja afreki. Ég gat varla beðið og hljóp upp tröppurnar og inn.
„Hó, ég er kominn!“
En ég fékk ekkert svar. Á meðan ég gekk um heimili mitt í leit að hinum fjölskyldumeðlimunum sem virtust hafa skotist af bæ, hugsaði ég með mér um orð konu vinir míns. „Guð hlýtur að vera karlmaður. Engin kona hefði tekið sjöunda daginn til að dásama verk sitt. Það eru fyrst og fremst karlmenn sem þurfa alltaf að fá einhvern til að dást að afrekum sínum.“ Ég hef engar forsendur til að segja hvort þetta sé rétt en ég hafði sannarlega þörf fyrir að gorta yfir hlaupaárangri mínum í gær og ég er svo sannarlega karlmaður.

Ég  varð svolítið hugsi yfir þörf minni að segja Sus og Davíð frá hlaupaafreki dagsins; þörfinni fyrir viðurkenningu og aðdáun. Um kvöldið var landsleikur og ég ákvað að kveikja á sjónvarpinu til að horfa á leikinn. Danmörk-Skotland. Eins og oft þegar vinsælt sjónvarpsefni er á skjánum eru margar auglýsingar. Þar sem ég er ekki vanur að sjá línulega dagskrá sé ég auglýsingar sjaldan. En mér til undrunar birtist mér hver karlaulinn á fætur öðrum á skjánum. Sú mynd sem dregin er upp af karlmönnum í auglýsingum er fyndin en þvílíkir aulabárðar sem karlmennirnir eru.

  1. Uffi tímir ekki að kaupa sér sjónvarp og er því sífellt á gægjum út um gluggann til að horfa á sjónvarp nágrannans. Hann þarf að halla höfðinu ansi langt út um gluggan til að sjá sjónvarpið og á endanum dettur hann út um gluggann. Næsta sena: Kona Uffa hefur haft samband við L’Easy og keypt skynsamlegt sjónvarp á þvílíkum kostakjörum. Sjónvarpið kemur með L’Easy. Kona Uffa er með skynsamleg gleraugu, skynsamlega klippingu og hún hefur vit fyrir Uffa. Næsta sena: Uffi er handleggsbrotinn og með plástur á enninu og situr við hlið sinnar skynsömu konu í sjónvarpssófanum fyrir framan nýja heimilissjónvarpið. Úffi er í fýlu en horfir á sjónvarpið.
  2. Öskubíllinn kemur inn eftir götu. Miðaldra karlauli með smábumbu er í þann mund að henda batteríum í ruslið. Eldri kona verður vitni að athæfi mannsins og grípur batteríin og eys yfir hann skömmum um heimskuna í honum, þá eyðileggingu á náttúrunni sem hann ætlar að valda vegna aulaháttar og hugsanaleysis. Karlinn stendur tómhentur með aulasvip og skammast sín fyrir heimskuna í sér. En konan setur batteríin á réttan stað svo þau valdi ekki skaða á náttúrunni.
  3. Bugaður maður kemur gangandi upp tröppur að heimili sínu með tvo innkaupapoka fulla af mat frá Lidl. Næsta sena. Hann er byrjaður að elda (steikja kjúkling og setja rosalega grænar baunir í pott) þegar fjölskyldan fer að tínast inn, og væntanlega líka vinir barnanna, því hópurinn verður stærri og stærri. Og þá er gott að hafa keypt inn í Lidl því maður fær svo mikið fyrir peninginn. Síðust kemur eiginkonan heim. Gengur hressilega að manni sínum kyssir hann létt og fær sér sæti meðal hinna fjölskyldumeðlimanna og bíður eftir að karlhólkurinn hundskist nú að setja matinn á borðið fyrir fjölskylduna sem situr og bíður.
  4. Fleiri auglýsingar voru í þessum dúr. Og ég velti fyrir mér, án þess að verða móðgaður, afhverju er þessi mynd nú allt í einu dregin upp af karlmönnum? Það er að segja miðaldra, hvítum karlmönnum. Er þetta í raun og veru samansafn aula?

ps. Í morgun fór ég í gráu buxurnar mínar. Ég held að þær séu saumaðar úr vönduðu efni. Að minnsta kosti líður mér alltaf eins og ég sé eins og Pep Guardiola þegar ég geng í þessum buxum. Hann spígsporar mjög oft meðfram hliðarlínunni í  samskonar buxum þegar hann stjórnar leik Man. City. Ég lít niður eftir fótboltalærunum á mér og hugsa: ég er eins og Guardiola. Hehe!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.