Hvaðan kemur þessi maður?

Í hverfið mitt er fluttur maður með hatt og honum fylgir hundur; svartur, ljótur hundur. Ég mæti þessum manni nánast á hverjum morgni þegar hann er úti að ganga með ræfilslega hundinn sinn og ég á leið í mitt langhlaup. Oftar en ekki verð ég vitni að því að annað hvort er maðurinn, hundurinn eða báðir tveir, að kýta, munnhöggvast, urra eða gelta á annað fólk eða aðra hunda sem verða á vegi þeirra. Þetta er leiðinda gaur, hugsaði ég í morgun þegar ég virti hann fyrir mér þar sem hann gekk upp Bakkegårdsvej, sjálfsánægður með þennan ljósa, barðstóra hatt á hausnum og lymskubros á vörum. Hvaðan kemur þessi maður? Ég er ekki vanur að vera svona neikvæður út í ókunnugt fólk.

Ég hef lært að heimurinn er ekki fagur, og langt frá því að vera það ævintýraland sem ég hélt heiminn vera þegar ég var barn. En í þeim microcosmos sem við, hvert um sig,  lifum í verður tilveran bara betri ef maður trúir á hið góða, stendur við sannfæringu sína og þorir að stunda heiðarleika án öryggisnets.

ps. Ég er sennilega kominn með einhverja túrbínu í rassinn á mér. Ég hljóp 10 km í dag og setti enn nýtt persónulegt hlaupamet í morgun á leiðinni milli Mørdrupvej og Snekkersten (1,63 km á 7:42 min. (4:42 pr. km). Ég er léttur á fæti þessa dagana.

pps. Sus flaug til Parísar í morgun og verður í Batman-íbúðinni í viku. Við Davíð verðum einir heima. Við höfum það næs.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.