Aukavinna framleiðslustjórans?

Í gær tók ég enn einu sinn fram bók Linn Ullmann, Hinir órólegu. Ég hef sérstakt uppáhald á þessari bók og ég les kafla og kafla, aftur og aftur. Bókin er orðin svo gegnumlesin að blaðsíðurnar eru margar lausar úr bókbandinu og ef ég passa mig ekki, ef ég meðhöndla bókina óvarlega, snjóar blaðsíðunum niður á gólfið og þá tek ég mér góðan tíma til að finna þeim aftur réttan stað í bókinni og ekki er óalgengt að ég lesi þær síður sem hafa fallið á gólfið.

Það var sem sagt í gær að ég las eina blaðsíðu sem hafði svifið niður á gólf þar sem Linn segir frá því hvað hún sé gleymin og tekur dæmi um að hún muni stundum ekki hvað bækurnar heiti sem hún hafi skrifað. Það fannst mér ekki undarlegt því ég, (og ég er með ágætt minni finnst mér) man aldrei hvað þær tvær bækur sem hafa komið út eftir mig heita. Ef ég er spurður stend ég á gati og fólki finnst stórmerkilegt að ég geti ekki munað hvað bækurnar mínar heita.

Annars var ég að velta því fyrir mér í hlaupinu í morgun hver Ingibjörg Helgadóttir sé. Þannig var að ég hljóp óvenju snemma af stað. Ég er að gera tilraun með að borða engan morgunmat áður en ég hleyp, því maginn á mér er mín veika hlið og mér verður stundum illt þegar ég hleyp. Oft er ég að því kominn að æla í miðju hlaupi. En það sem ég vildi sagt hafa. Ég kveikti aldrei þessu vant á RÚV, bein útsending frá Rás 1, til að hafa í eyrunum á meðan ég geystist eftir vötum bæjarins. Enn var næturútvarp á dagskrá, enda snemma morguns og tímamismunurinn tvær klukkustundir, og einhver Ingibjörg Helgadóttir sagði börnum frá Agli Skallagrímssyni og mér fannst hún segja svo skemmtilega frá að ég fylltist hreinni aðdáun á frásagnarhæfni þessarar konu. En svo mundi ég að framleiðslustjóri Forlagsins, sem mér finnst alveg framúrskarandi manneskja, heitir þessu sama nafni. Gæti verið að framleiðslustjórinn hjá Forlaginu byrja daginn á að spjalla við börn í næturútvarpi Rásar 1 áður en hún heldur til vinnu niður á Bræðraborgarstíg?

ps Ég er búinn að kaupa mér nýju bók Sally Rooney. Fékk dönsku þýðinguna úti í bókabúð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.