Ranghugmyndir ljóðskáldanna.

Sennilega gerist það bara í bókmenntabransanum að fyrirtæki reki starfsmann eða starfsmenn sína á sunnudegi. Mér finnst eins og að flest fyrirtæki hefðu beðið til mánudags. En vikudagurinn er ekki aðalmálið í því sem mér liggur á hjarta. Sunnudaginn 5. september ákvað stjórn bandaríska bókmennta- og ljósmynda tímaritsins Barren Magazine að reka einn af ritstjórum sínum Daniellu Rose – Daniella Rose er ekki bara ritstjóri, hún er sjálf ljóðskáld – því föstudaginn 3. september skrifaði hún á einn af hinum virku samfélagsmiðlum: „Ég vildi óska að ljóðskáld gætu fattað að almenningur hefur alls engan áhuga á því sem þau gera eða skrifa. Því er það svo að þegar við ljóðskáldin segjum eitthvað tölum við  bara hvort við annað. Það ríkir sú ranghugmynd að ljóðagerðin hafi áhrif, hafi völd, en sú hugmynd lifir bara vegna þess að við ljúgum að sjálfum okkur.“

Svo mörg voru þau orð í lauslegri þýðingu. Getur það verið að ljóðskáldin þurfi að horfast í augu við  að þau geta einungis verið vitni og borið vitni um hræringar heimsins án þess að hafa hin minnstu áhrif til hins betra, eða verra. Ég minnist þess að í fyrra gaf áhrifavaldurinn Hallgrímur Helgason út mikinn ljóðabálk sem átti að opna augu þjóðarinnar fyrir öllu því óréttlæti sem skáldið sá í heiminum. Hann náði  að vekja athygli á ljóðabókinni, sjálfum sér og allri ljóðadagskránni. Með ljóð að vopni dansaði Hallgrímur fyrir áheyrendur undir trommutakti og flutti boðskap sinn. En var það bara ranghugmynd að halda að allt þetta umstang hefði einhver áhrif, eða að einhver mundi sjá það óréttlæti sem Hallgrímur benti á og gera eitthvað til að leiðrétta? Ef tilgangur ljóða-dans-takt-sýningarinnar var að opna augu almennings, vekja almenning til dáða, var hann þá til einskis því ljóð skipta ekki máli? Varla var tilgangur performansins bara til að selja ljóðabækur eða vekja athygli á sjálfu skáldinu þegar óréttlæti heimsins var opinberað þeim sem hlustuðu á dagskrána? Eru það örlög ljóðskálda að tala fyrir daufum eyrum? Er allt ljóðabaslið einungis til gleði fyrir aðra ljóðabaslara? Það er að minnsta kosti skoðun Daniellu. Ná efasemdir hennar lengra en bara til ljóðsins, gilda þær um vanmátt bókmenntanna almennt?

Daniella var rekin frá bókmenntatímaritinu fyrir að tjá efasemdir sínar um mátt ljóðsins. Kannski verð ég sjálfur rekinn frá Kaktusnum fyrir að minnast á Hallgrím í þessu samhengi? Það er sunnudagur á morgun.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.