Reiði skósmiðsins.

Nú er sunnudagurinn runninn upp og himinninn grætur þungum tárum. Venjulega velti ég ekki veðrinu fyrir mér – auðvitað finnst mér alltaf gott þegar sólin skín – en nú leggjast þessi þungu svörtu ský og óaflátanlegt regnið á sálina á mér. Kannski eykur það trega minn að hér í götunni logar allt í nágrannaerjum (ég á þó ekki í deilum við neinn) og hingað koma nágrannar til að gráta á öxlina á mér og ég bíð þeim að borða kvöldmat á meðan ég hlusta á harmakveinin. Ég komst ekki einu sinni á tennisæfingu í gær því ég gat ekki hugsað mér að taka þátt í æfingu með upphafsmanni deilnanna og þeim sem gengur harðast fram. Ég var því  heima á meðan æfingafélagar mínir hömuðust að æfa bakhönd, forhönd og smash.

Þótt sviptingar séu í veðrinu hér, aldrei þessu vant, er logn yfir mínu eigin lífi. Í gær las ég nær allan daginn, fór út í búð til að kaupa í kvöldmatinn og svo eldaði ég fyrir okkur Davíð sem erum einir heima. Og við borðuðum einir aldrei þessu vant. Auðvitað toppmatur. Í gærkvöldi var ég kominn upp í bæli klukkan tíu og las fram eftir kvöldi. Ég er í gangi með þrjár bækur. Tvær mjög þykkar (báðar sænskar) önnur 756 blaðsíður og hin yfir 800 síður og ég er því miður of hæglæs til að ég þjóti í gegnum þessar bækur þótt þær séu fyrirtak. Þriðja bókin sem ég les er ekki löng; Stol eftir Björn Halldórsson. Ég er rétt byrjaður á bókinni og mér finnst strax að ég heyri þennan séríslenska tón sem einkennir margar bækur af kynslóð Björns. Ekki þekki ég Björn Halldórsson og hef sennilega aldrei hitt hann. Ég segi eins og maðurinn. „Maður þarf ekki að þekkja skósmiðinn sem býr til skónna sem maður gengur í en maður fær nær alltaf áhuga á að vita meira um rithöfunda þeirra bóka sem maður les.“

Skósmiðinn hér í bænum þekki ég ekki þótt ég hafi átt viðskipti við hann og hann hefur gert við leðurskó sem ég á. Í gær þegar ég gekk framhjá skóverkstæðinu hans bankaði hann harkalega í gluggann og gaf mér bendinu að koma inn. Ég hlýddi og gekk inn á verkstæðið.
„Þú skuldar mér peninga,“ sagði hann með þjósti.
„Skulda ég þér peninga? Hvernig getur það verið?“ Ég var hissa og reyndi að rifja upp nýleg viðskipti okkar og mundi bara eftir að ég hafði fengið hann til að smíða húslykla fyrir nokkrum vikum.
„Já, þú skuldar mér 150 krónur. Ég vil að þú borgir mér núna. Strax.“
„Fyrir hvað?“
„Áttu ekki hund?“ spurði hann  jafn reiður og áður.
„Nei, ég á sko ekki hund.“
Skósmiðurinn horfði rannsakandi á mig. Og sagði síðan í ögn mildari tón. „Nú, þá ert það ekki þú sem skuldar mér. Það kom maður hingað,  pantaði hundaól og hefur ekki sótt hana.“
Ég kvaddi skósmiðinn sem er gífurlega höfuðstór og kominn með nýja, brúna leðursvuntu framan á sig.  Ef ég væri svona einarður í að rukka fólk sem skuldar mér peninga … ja, hvað þá?

ps. Það er kannski óviðeigandi að skreyta þessa dagbókarfærslu með bjartviðrismynd (sjá efst) en regn myndast bara ekki svo vel.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.