Á gönguferð minni í gær hitti ég nágranna mína sem voru úti að viðra hundinn sinn og ég slóst í för með þeim. Gönguleiðin sem ég fylgi, sem þau ákváðu að fylgja líka, er um það bil 8 km eða rúmlega klukkutíma ferðalag á tveimur jafnlöngum. Stundum geng ég einn, stundum kemur Sus með. Þegar ég er einn reyni ég að nýta gönguferðina til að hlusta á hljóðbók, tónlist eða íslenskt útvarp. En þar sem ég hafði fengið nýja göngufélaga í gær var eðlilegast að við töluðum saman, skiptumst á upplýsingum og sögum.
Mér finnst ekki sérlega skemmtilegt að segja frá því sem ég er að skrifa, en göngufélagar mínir voru nokkuð ágengir að heyra um verkefni mín, vangaveltur, hvers konar bók væri í pípunum og svo framvegis. Og þá, allt í einu og fyrirvaralaust, glopraði ég því út úr mér, og það er í fyrsta sinn sem ég tjái þessar hugsanir mínar, sem þó hafa angrað mig lengi, að kannski ætti ég að taka mér hlé frá þessu skrifstússi og fara að finna mér eitthvað annað að gera. Þetta kom þessum ágætu hjónum í opna skjöldu og urðu þau jafn hissa og ég. Af hverju missti ég þetta út úr mér?
Af hverju að gera hlé á skrifstússi? Spurðu þau. Það var eðlileg spurning sem ég gat ekki svarað almennilega öðruvísi en að mér væri farið að finnast ferlið eitthvað gleðilaust. En nú fer ég til Parísar á morgun og í þeirri ferð hef ég haft í hyggju að skrifa. Ég hef að minnsta kosti eina viku til að finna gleðina.
ps Nú fer ég að pakka og spurning hvaða bækur koma með til Parísar. Það er alltaf stóra spurningin.