Ég hef haft þann leiða vana í mörg ár að lesa fréttir af mbl.is. Ég hef hugsanalaust farið inn á þann fréttavef á hverjum degi en samt fussað yfir hversu ótrúlega lélegur og metnaðarlaus vefur þetta er. (Ekki held ég að visir.is, dv.is séu skárri) Fréttirnar eru illa skrifaðar (mér finnst það), fullar af stafsetningarvillum og svo það versta: slúðurslagsíðan verður sífellt þyngri á þessum vef. Svokallaðar fréttir af hinu fræga fólki. Fólk sem reynir aktívt að verða frægt – ég meina fólk sem hefur fengið smjörþefinn af frægðinni og vill bara meiri og meiri frægð hvað sem það kostar. Það er eilíft nýjar fréttir af þessu fólki og alls staðar rekst maður á skrif um frægðarfólkið – nú snýst gjörvallur kulturinn um dýrkun á frægðarmanneskjum – eins og þetta sé ekki bara aðlaðandi fólk heldur beinlínis til fyrirmyndar. Þetta sýnir (finnst mér) hversu langt þessi samfélagssjúkdómur er genginn. En nú er ég hættur að lesa þann ömurlega snepil mbl.is (ef maður má segja svo) og hef snúið mér alfarið að RÚV.IS. (Ég veit ekki af hverju ég er að æsa mig yfir þessu en augljóslega finnst mér dýrkunin samfélagsleg og menningarleg afturför. Auðvitað ætti ég bara að þegja).
En nú sit ég í Kastrup og bíð eftir að Air France-þotan, sem ég hef bókað mér far með, hefji sig á loft og fljúgi með mig til Parísar.