Hljóð næturinnar

Af hverju er það svo að fólk gangi grátandi hér eftir þröngum götum mitt í hinni frönsku nótt? Ég á ekki við hinn hljóðlausa grát með þungum, þöglum sorgartárum, heldur hinn skerandi grát með háværu harmakveini. Ég er í París og mér var ekki svefnsamt fyrstu nóttina í höfuðborginni. Ég er vanur að sofa heima í mínu kyrrláta húsi þar sem nágrannarnir sofa eins og ég sínum væra svefni og allt er hljótt. En hér í París, höfuðborg Frakklands, virðast menn ekki hafa miklar áhyggjur af svefni annarra. Ég veit ekki hvað gengur á en stundum líkjast hljóðin því að þungavinnuvélar athafni sig, flytji þunga stálbita sem þeir reka óvart og endurtekið í húsveggi því stjórar vélanna fara ekki varlega eða virða svefntíma hina svefnþurfi.

Í nótt voru það ekki athafnir þungavinnuvéla heldur fyrst og fremst grátur kvenna sem vöktu mig og héldu fyrir mér vöku. Hví voru þær að gráta þessar konur? Ég veit því miður ekki hvað hefur valdið  þessari miklu sorg hjá konunum – ég reikna ekki með að þetta hafi verið ein og sama konan sem hóf grát sinn aftur og aftur í nótt með töluverðu tímahléi heldur fleiri konur. (Það er kannski óvarlegt af mér að setja kyn á þessi hljóð en  mjóar raddir hinna grátandi fannst mér ótvírætt tilheyra kvenkyni.)

Það rignir í París á miðvikudagsmorgni og hipsterkaffistaðurinn minn, sá sem ég hef alltaf sótt á ferðum mínum til Parísar,  hefur ekki lifað faraldurinn af og er hann lokaður; hlerar fyrir gluggum. Mér þótti það leitt þegar ég uppgötvaði sorgleg örlög hipsteranna minna. Þetta tvennt, þung rigning og lokun uppáhaldskaffihússins míns, gæti auðveldlega sett viðkvæmari sálir en mig í ójafnvægi. Ég harmaði auðvitað stöðuna en ég gekk hnarreistur af stað í morgun eftir regnvotum götunum og fann líflegt kaffihús sem mér leist ágætlega á. Nú hef ég borðað þungan morgunmat; spælt egg og brauðbollu. Það er auðvitað furðulegt val en stundum er mér algerlega ósjálfrátt.

ps. ef einhver hefur svar við upphafsspurningu þessarar dagbókarfærslu heyri ég það gjarnan.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.