Stormriddararnir

Aftur er ég sestur á sama kaffihús og í gær og eins og í gær er ég eini gesturinn hér svona árla morguns. Ég á von á að hingað þyrpist fólk þegar það sér Íslendinginn með stóra nefið sitja í makindum og drekka franska espresso kaffið. Þannig var það að minnsta kosti í gærmorgun. Hér er fyndinn lagalisti spilaður: Janis Joplin, Doors, Bod Dylan … Nú hljómar til dæmis Riders in the Storm og áðan var það House of the Rising Sun.

Mér til ánægju fékk ég bréf frá lesanda Kaktusins í gær, það gerist mjög sjaldan núorðið að ég fái skemmtileg og uppörvandi bréf frá lesendum. Nick Cave segist fá 150 bréf á viku frá lesendum sínum en hann heldur út síðunni The Red Hand Files.  Hann er frægur og síðan hans er góð.

En í bréfi þessa ágæta lesanda fékk ég meðal annars þá spurningu hvernig mér dytti alltaf, eða á hverjum degi, eitthvað í hug til að skrifa um. Fyrst þegar ég setti mér að skrifa á hverjum degi á Kaktusinn hafði ég áhyggjur, og stundum hafði ég töluverðar áhyggjur, af því hverju ég ætti að finna upp á næsta dag. Strax og ég hafði klárað að skrifa færslu dagsins fór ég að velta fyrir mér efni næstu færslu; ég las greinar með dagbókina mína í huga, hvort þar væru hugmyndir að nýrri færslu. En nú síðustu ár hef ég ekki haft þessar áhyggjur, ég sest niður og skrifa það sem kemur í hugann, án þess að hafa velt neinu sérstöku fyrir mér. Ég hef lært að því meira sem maður skrifar því auðveldara verður að skrifa. Það er eins og maður þjálfi vöðva í heilanum sem sinnir skrifstörfum og skrifhugmyndum. Skrif ala af sér skrif.

Í gær gekk mér vel við mitt stúss. Ég sat óslitið á sama stól frá klukkan níu til klukkan að verða hálf sjö. Morgunmaturinn hafði verið svo ríkulegur að ég þurfti ekkert að borða fyrr en um kvöldið. Ég hafði ætlað mér að hlaupa í Parísarborg  í gær, en þrátt fyrir góðan ásetning, kom ég mér ekki af stað. Í dag er ætlunin að hlaupa niður að bæjaránni Signu og síðan á stígunum meðfram. Nú þarf ég að sýna meiri viljastyrk. Á laugardaginn verður opnuð sýning á síðasta verki Christos: innpökkunin á Sigurboganum. Þá ætla ég að hlaupa þangað. Það eru víst um fjórtán kílómetra hlaup fram og til baka.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.