Fyrir bókmenntafræðinga framtíðarinnar

Á morgun mánudag er kannski dagur hinna stóru tíðinda. Í vikunni fékk ég óvænt bréf frá frönskum útgefanda sem ég kannast við frá dögum mínum sem forleggjari. Ég var satt að segja hissa að fá þennan tölvupóst nánast á sömu stundu og steig út úr flugvél Air France á Charles de Gaulle-flugvellinum í París. Mig grunaði að einhver sem ég þekki hefði gert forleggjaranum viðvart um að ég væri á leið til Parísar. En þessi ágæti maður, sem hafði ekki hugmynd um að ég væri staddur í París, átti erindi við mig og við ákváðum að hittast á forlaginu hans á morgun, mánudag, klukkan eitt til að ræða málin. Það verður því minna úr skrifum á morgun en ég hafði áætlað.

Ég var einmitt að hugsa um þetta væntanlega stefnumót þegar ég gekk út í franskan sunnudagsmorgun. Parísargöturnar voru rólegar, fáir á ferli og maður gæti ályktað að íbúar Paríar séu seinir á fætur á sunnudögum. En ég gekk sem sagt í hægðum mínum til að fá mér morgunmat á  nýja uppáhaldskaffistaðnum mínum og velti fyrir mér á göngunni hvort ég gæti hugsað mér að flytja til Parísar og hvort ég ætti að sækja um vinnu hjá kunningja mínum á franska forlaginu. Ég er ekki alveg frábitinn því, fann ég á sjálfum mér, að byrja að vinna aftur á forlagi. En kannski ekki frönsku forlagi og ég get ekki hugsað mér að byrja aftur að læra að lifa á nýju tungumál.

Kannski er ég bara eitthvað frústreðaður að vera bókaskrifari þessa dagana. Nú eru aðeins nokkrar vikur þar til nýjasta afurð þessa skrýtna ritferils míns kemur á göturnar á Íslandi og það er einhvern veginn eins og bókin komi út í algjört tóm. Ég finn ekki fyrir sömu gleði og spenningi og þegar tvær fyrri bækur mínar komu út. Mér finnst eins og eitthvað, sem ég fæ ekki fest hendur á, sé að – ekki að bókinni eða sögunni því ég er stoltur yfir henni og ánægður með afraksturinn. En þessi flatneskju- og tómleikatilfinning er furðuleg og óþægileg. Hér með er það skráð fyrir sjálfan mig og bókmenntafræðinga framtíðarinnar.

Í gærdag fékk ég svo annan óvæntan tölvupóst þar sem ég var boðaður til fundar á veitingahúsi hér í Mýrinni annað kvöld klukkan 20:00 og það er fundur sem gæti leitt til þess að mitt gamla forlagshúsnæði á Bræðraborgarstíg fái nýtt hlutverk í framtíðinni.

En ég finn vel að ég hljóp óvenju langt í gær. Kroppurinn, þessi langi kroppur, er enn stífari og enn stirðari en venjulega. Ég hleyp ekki í dag en sennilega fæ ég mér ekstra-göngutúr, tek stóran krók á leið minni heim frá kaffihúsinu og læt Parísarvindanna blása í gegnum eyrun á mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.