Klæðaburður farandsölumanns

Sennilega er ég kominn í einhvers konar starfskrísu því mig dreymdi í nótt að ég væri orðinn farandsölumaður. Ég veit ekki hvað ég var að selja (kannski snákaolíu) en ég bar kassa og hugsaði með mér með kassann í fanginu: ég er svo góður að bera. Kannski dreymdi mig þennan draum nótt af því að ég hafði skrifað kunningja mínum, sem er forleggjari á dönsku forlagi, og spurt hann hvort ég geti komið og unnið hjá honum. Bréfið skrifaði ég eftir að ég var í rauninni kominn undir sæng og hafði lagt mig til svefns. En svo lá ég með lokuð augu í myrkrinu, hugsaði um daginn sem var liðinn og allt í einu gat ég ekki stillt mig lengur og sótti tölvuna mína inn í stofu og skrifaði eins konar starfsumsókn. Þegar ég hafði samið bréfið – sem var töluvert langt því ég vildi útskýra fyrir forleggjaranum hvað ég var að hugsa – lokaði ég tölvunni og ákvað að láta nóttina líða áður en ég sendi bréfið af stað. Ég hef enn ekki sent það.

Eftir morgunbaðið og morgunraksturinn gekk ég út á götur Parísarborgar. Að vísu ákvað ég að klæðast græna frakkanum mínum í dag – í stað þess að fara bara út á hvítri skyrtu – því nú er orðið nokkuð svalt í veðri. Það rigndi í nótt. Stórir pollar voru á götum og gangstéttum og þeir vegfarendur sem ég mætti á gangi voru svolítið þungbúnari á svipinn en undanfarna daga þegar sólin hefur létt öllum lundina.

Á kaffistaðnum mínum var mér tekið fagnandi og það gladdi mig að starfsfólkið, sem er svo velviljað, tók svona vel á móti mér. Þau færðu mér meira að segja brosandi tvöfaldan espresso án þess að ég hefði beðið um hann því þau eru farin að þekkja morgunóskir mínar.

Þetta er síðasti heili dagur minn í París því á morgun – að vísu ekki fyrr en klukkan fimm – flýg ég aftur til baka til Danmerkur. Ég hafði hugsað mér að nýta morguninn, eða þar til ég geng af stað til fundar við franska forleggjarann á skrifstofu hans um hádegisbil, til að einbeita mér að skrifverkefni mínu og sjá hvort ég verð ekki ánægðari.

Hér fyrir utan gluggann á kaffihúsinu, handan götunnar, er barnaheimili. Ég sé ungar mæður koma með börn sín sem mörg gráta í fangi þeirra. Ég kenni í brjósti um börnin, ég kenni brjósti um mæður hinna grátandi barna. Ég man hvernig það er að skilja grátandi börn eftir á barnaheimili. Ég kenni líka í brjósti um hinar múslimsku konur sem standa fyrir utan barnaheimilið með börnin sín í kerrum, þær eru svo kappklæddar, með allar þessar slæður. Það hlýtur að vera óþægilegt að vera vafinn inn í mörg slæðulög á heitum dögum.

Í dag geng ég  löngu leiðina heim frá kaffihúsinu og ætla að sjá hvaða ævintýri Parísarborg býður upp á svona snemma mánudags.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.