Dreggjar dagins og ofneysla koffíndrykkja

Á ferðum mínum um Parísarborg, það er að segja þegar ég hef gengið á milli bæjarhluta, hef ég hlustað á tvær bækur. Í fyrri hluta vikunnar spilaði ég nýja bók Sally Rooney; Beautiful World Were Are You, eins og ég hef áður minnst á. Og ég get vel endurtekið að ég var mjög ánægður að hlusta á verk þessa kornunga höfundar sem hefur tekist að heilla lesendur um allan heim. Bók hennar hlýtur bráðum að koma út í íslenskri þýðingu eins og tvær fyrri bækur hennar.

Eins og ég hef líka minnst á hér í þessum áreiðanlega upplýsingamiðli, Kaktusnum, átti ég fundi í gær. Ég get sagt það strax að báðir voru fundirnir einstaklega vel heppnaðir og ánægjulegir, uppörvandi og áhugaverðir. Mér þótti sérlega gaman að hitta þessa tvo góðu og gáfuðu herramenn í gær og gerðu þessi stefnumót ferð mína hingað til Parísar enn eftirminnilegri en ella.

Hin bókin sem ég  hef haft í eyrunum síðustu daga veitir mér einstaka ánægju; ég flissa og hlæ yfir persónum bókarinnar í stórkostlegum lestri einhvers bresks leikara sem ég þekki ekki. Af einhverjum ástæðum valdi ég að hlusta á gamla bók sem ég hef margoft áður lesið, bæði á ensku og íslensku. The Remains of the Day eftir Kazuo Ishiguro. Þessi bók er algjört og stórkostlegt meistaraverk, ég get ekki orðað hrifningu mína öðruvísi. Mikið er rödd sögumannsins stórkostleg. Æ, hvað ég verð glaður að hlusta á þennan lestur.

Seinna í dag flýg ég heim. Flugvélin til Kaupmannahafnar fer í loftið frá CDG flugvellinum uppúr klukkan fimm og þar með líkur þessari ánægjulegu dvöl minni í franska höfuðstaðnum. Kannski verð ég að viðurkenna fyrir sjálfum mér að vinnuafköst voru með minna móti miðað við fyrri skrifvikur í Batmaníbúðinni. Ég slugsaði samt ekki, ég var bara rólegri og pressaði mig ekki eins mikið og ég hef gert í fyrri ferðum mínum. Hins vegar las ég mikið og kannski tók ég góðar ákvarðanir. En það veit maður aldrei.

ps. Ég held að ég hafi lært að ég má ekki drekka þrjár Pepsi Max-dósir á einum degi því mér verður skelfilega illt í maganum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.