Persónuleikinn

Ég vaknaði í Danmörku í morgun eftir vikudvöl í Frakklandi og ég fann að ég hafði sofið betur en í rúminu í Batmaníbúðinni í París. Ég  var úthvíldur þegar ég opnaði augun og hóf þegar í stað hin daglegu störf. Ég hljóp eftir Strandvejen, gerði leikfimiæfingar og fór í göngutúr út á akrana. Parísardvöl er að baki.

Ég tók hlutunum með svo mikilli ró í dag  að ég ákvað að  fá mér sæti í fína stólnum mínum eftir hádegi og verja 57 mínútum af lífi mínu til að hlusta á Braga Ólafsson, rithöfundinn, tala við útvarpsmanninn Guðna Tómasson í útvarpsþættinum Börn tímans. Í þættinum heimsótti Guðni  Braga á heimili hans í fjármálahverfinu og þeir spjölluðu um líf og störf Braga. Samtal þeirra félaga var ágætt, náði svo sem aldrei neinum sérstökum hæðum, en þó sá ég ekki eftir að hafa notað  tæpan klukkutíma til að hlusta á þáttinn sem var bara notalegur. Við nánari umhugsun komst ég í raun um, að eftir hlustun var ég  litlu nær um skáldskap Braga og persónu hans. En það kemur kannski ekki að sök því bæði þekki ég skáldsskap Braga – ég hef lesið allar bækur hans – og tel mig vita hvaða mann hann geymir enda þekktumst ágætlega þegar við unnum saman að útgáfu bóka hans. En ég hef nánast ekki talað við Braga síðan hann yfirgaf Bjartsforlagið á sínum tíma til að skipta yfir á Forlagið. Ég býst ekki við að persóna, persónuleiki, hans hafi breyst umtalsvert á þessu tímabili.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.