Heimur refsenda

Vantrú er myrkur, trúin er ljósið, sagði presturinn í morgunútvarpinu. Þetta er örugglega rétt hjá henni, hugsaði ég og horfði út í svartamyrkrið sem grúfði yfir firðinum. Enn var meira en klukkutími í sólarupprás. Ég hafði hellt upp á kaffi og ákveðið að setjast með ilmandi kaffibollann fyrir framan tölvuna mína og leysa lítið verkefni sem ég hafði tekið mér fyrir hendur. Í bakgrunninn hljómuðu morgunrámar raddir útvarpsmannanna sem ræddu veðurhorfur dagsins. Þannig byrjaði þessi dagur.

Í gær las ég að Sally Rooney, hin mikla stjarna bókmenntanna, hefði ákveðið að neita umboðsmanni sínum, sjálfum Wylie, að selja þýðingarréttinn á nýju bókinni Fagra veröld, hvar ertu (Beautiful World Where Are You) til Ísrael. Því geta Gyðingarnir í Ísrael ekki lesið bók hennar á hebresku. Þetta gerir hún í stuðningi sínum við palestínsku þjóðina. Ekki veit ég hvort þetta hjálpar hinni þjáðu þjóð Palestínu að Sally refsi ísraelsku þjóðinni á þennan hátt. Er þetta leiðin fram? Ég hugsaði með mér að ef umboðsmaður minn hefði möguleika á að selja þýðingarréttinn af Álftabæjarþríleiknum til Ísrael mundi ég fagna því og gæfi honum grænt ljós. (Ég segi honum þrátt fyrir að umboðsmaður minn sé kona, því orðið „honum“ vísar til orðsins „umboðsmaður“. Bæði karlar og konur geta verið umboðsmenn). Ég mundi líka gefa umboðsmanninum grænt ljós á að selja til Tyrklands, þrátt fyrir að þeir séu vondir við Kúrdana, ég mundi gefa grænt ljós við sölu til Rússlands þrátt fyrir að ég hafi heyrt ásakanir um spillingu valdamanna og illa meðferð þeirra  á andstæðingum sínum og svona gæti ég lengi haldið áfram því víða í veröldinni er hægt að sjá óréttlæti, kúgun og ofbeldi. Ég held að ísraelskir bókaunnendur hefðu bara gott af því að lesa bók Sally Rooney á móðurmáli sínu og lestur sögunnar gæti mögulega haft jákvæð áhrif á lesendur; stuðlað að umburðarlyndi, hjartagæsku og velvild. En Sally velur frekar að refsa. Það er líka val. Ég vona að heimurinn fyllist ekki af refsendum; að allir í sínu eigin réttlæti refsi ekki hver öðrum fyrir ólíkar sakir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.