Satt að segja svaf ég ekki vel í nótt. Ekki vegna þess að stór dagur væri framundan, útgáfudagur nýjustu bókar minnar, heldur vegna þess að einhver óskilgreindur tilvistarórói þjakaði mig. Og ekki í fyrsta skipti. Ég er rómantískur maður.
Löngu fyrir sólarupprás var ég því á fótum hér í Hvalfirðinum, vappaði léttklæddur um húsið, gerði armbeygjur og magaæfingar, fékk mér kaffi og ristað brauð og horfði út um gluggann sem snýr að sjálfum firðinum, hinum djúpa Hvalfirði. Ég kveikti á útvarpinu og hlustaði á árrisula útvarpsmenn hjá ríkisútvarpinu hjala um daginn sem var framundan. Er þetta ekki Guðrún Hálfdánardóttir? hugsaði ég og lagði við hlustir. Konan með ennistoppinn, eins og ég kallaði hana í gamla daga.
Þrátt fyrir myrkrið sem grúfði yfir firðinum skynjaði ég að himinninn var harla þungskýjaður. Botnsúlurnar, fjallstindarnir í botni fjarðarins, voru bæði hjúpaðar dökkum regnskýjum og bláleitu náttmyrkri.
Strax og örlaði fyrir fyrstu dagsskímu klæddi ég mig í hlaupagalla (gula treyju sem heldur vel hita og vekur athygli bílstjóra) og hljóp af stað. Ég einsetti mér að njóta hlaupsins í stað þess að láta hlaupahraðann kúga mig eins og mér hættir til. Ég ætlaði að vera vakandi yfir fegurð náttúrunnar, eins og maður segir, í stað þess að góna á hlaupabrautina og hlusta eigin andardrátt. Því hljóp ég hægar en ég er vanur. Jafnskjótt og ég var kominn niður malarbrekkuna, sem liggur hér frá húsinu, ákvað ég að taka stefnuna að Saurbæjarkirkju. Í dag skyldi ég heiðra sálmaskáldið, Hallgrím Pétursson, og ég skyldi hugsa til hans á hlaupunum eftir þjóðvegi 47, Hvalfjarðarvegi. Ég er rómatískur maður.
„Upp upp mín sál og allt mitt geð,“ sönglaði ég á meðan ég hljóp eftir malbikuðum veginum. Engir bílar voru á ferð eftir þjóðbrautinni, en í túnunum í kring voru hestar og kindur á beit. Dýrin gerðu hlé á grasáti sínu og horfðu forviða á þennan gulklædda söngvara. Leikrit fyrir einn á þjóðvegi 4, hugsaði ég og hækkaði róminn. „Upp mitt hjarta og rómur með,“ og nú lét ég hlaupatakinn fylgja söng mínum. Ég var bæði leikarinn og eini áhorfandinn í þessum einfalda söngleik og bæði leikari og áhorfandi urðu gífurlega hrærðir yfir flutningnum. Ég er nú meiri álfurinn.
Ég vissi að ég var matalaus, ísskápurinn var alltof tómur og hafði verið það alveg frá því í gær. En ég var orðinn svangur og ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að fara í almennilegan innkaupaleiðangur og kaupa eitthvað í matinn. Það var því strax að lokinni sturtu að ég hélt af stað á nýja bílnum mínum – Toyota-bílnum sem ég keypt á bílasölu í gær – áleiðis til Akraness í innkaupaleiðangur. Eftir stuttan akstur frá húsinu kom ég auga á nokkrar fallegar kindur á beit fyrir neðan veginn. Ég stoppaði nýja bílinn minn í vegarkantinum, setti blikkljós á og gekk af stað út í beitarhagann þar sem pattaralegar og mannfælnar kindur gláptu forvitnar á þennan langintes sem stikaði í átt til þeirra. Mig langaði svo að eiga mynd af þremur sakleysislegum kindum á útgáfudeginum. Það hefði glatt mig mjög hefði mér tekist að fanga þrjár forvitnar og sakleysislegar kindur á mynd á þessum degi. En þær voru styggar og vildu ekki leyfa mér að mynda sig þótt ég talaði ofur blíðlega til þeirra, reyndi að útskýra fyrir þeim fyrirætlan mína, góðan ásetning og ástæðu þess að myndatakan væri mikilvægt fyrir mig. Þær skyldu mig ekki.