Ekkert í heiminum er jafn hljóðlátt og snjór, heyrði ég eldri konu með gífurlega hátt hár segja við afgreiðsludömu í Melabúðinni þegar ég var þar sjálfur staddur síðdegis í gær. Ekki veit ég tilefni þessarar háfleygu setningar, eða kannski misheyrðist mér bara. Ekki snjóaði í námundanum nema kannski flösu niður á axlir síðhærðs manns sem stóð fyrir framan mig í afgreiðsluröðinni. Starsmaður afgreiðslukassans lét sem hún heyrði ekki athugasemd konunnar. Ef til vill skildi hún ekki hvað sagt var því mig grunaði að hún væri af erlendu bergi brotin.
Ég átti erindi í Mela- og Hagahverfið í gær og hafði ekki gengið nema spölkorn frá versluninni þegar ég kom auga á mikið veggjakrot á bílskúrvegg við Hagamelinn. HAUKUR LIFI, stóð skrifað með svörtum stöfum þvert yfir hvítmálaðan bílskúrvegginn. Mér datt strax í hug að þarna væri vísað til ljóðskáldsins Hauks Ingvarssonar því ég veit að hann er búsettur í hverfinu. Gat verið að þetta væri auglýsing fyrir nýju ljóðabókina hans, Menn elska menn? Að minnsta kosti verkaði þetta ákall um langt líf Hauks á mig sem einskonar hvatning til að kaupa bókina hans. Að vísu var óravegur þaðan sem ég stóð í næstu bókabúð en í dag þegar ég bruna til Reykjavíkur á fund Kolbrúnar Bergþórsdóttur hef ég ákveðið að koma við í bókaverslun og kaupa bókina hans. Ég kann sérlega vel við Hauk og ég held satt að segja að hann sé gott ljóðskáld.
ps. Mig langar líka til að minnast á að ég fékk höfundareintök af bókinni minni í gær enda er bókin víst bæði kominn til landsins, eftir langferð um heimsins höf, og henni hefur þegar verið dreift í bókaverslanir á Íslandi.
pps. Einnig væri gaman að láta þess getið að í vikunni var gerður þýðingarsamningur við bókaforlag í Úkraínu. Forlagið greiddi fyrir leyfi til að þýða allar bækurnar þrjár (three book deal) í Álftabæjarröðinni á úkraínísku. Pólitískt ástand í landinu Úkraínu breytir engu um sölu bóka minna þangað.
ppps. Höfundareintökin sem mér áskotnast eru 25 (tuttuguogfimm 00/100) og ekki tekst mér að koma þeim út þar sem ég flýg til Danmerkur á morgun. En ef einhver hefur sérstakan áhuga á að lesa bókina póstsendi ég með gleði eintak án endurgjalds. Sendið mér bara línu.