Þegar ég lokaði bókinni að loknum lestri virti ég fyrir mér ljósmynd af höfundi ljóðanna sem prentuð er á fremra innábrot bókakápunnar. Myndin var af ungum manni. Yfir honum var hógværð og greindarleg ára en ég gat ekki séð að honum yxi skegg. Kinnarnar og hakan voru glansandi slétt eins og á barni. Er hann taðskegglingur?
Ég hafði látið áform mín rætast í gær. Strax eftir morgunkaffið brunaði ég eftir þjóðvegi 47, Hvalfjarðarvegi og út á þjóðveg 1, Vesturlandsveg, og alla leið inn í höfuðborgina. Þar sinnti ég þeim erindum sem ég hafði einsett mér að klára. Þau voru fjölmörg. Meðal þeirra var ferð inn í bókabúð í miðbæ Reykjavíkur til að kaupa ljóðabók Hauks Ingvarssonar, Menn elska menn. Bókina fann ég meðal annarra ljóðabóka. Aðgangur að bókastöflunum var greiður því enginn annar virtist ætla að kaupa ljóðabók á sömu stundu og ég, þótt úrvalið væri gott. Þetta vakti furðu mína en um leið gladdist ég yfir að ég þyrfti ekki að troða mér leið að bókinni sem ég girntist. Á meðan ég gramsaði aðeins í bókastæðunum gekk afgreiðslukona framhjá mér. Ég gat ekki alveg áttað mig á því hvort hún væri hölt en það var eitthvað hik í göngulaginu sem vakti athygli mína og kallaði fram hugrenningar um mögulega helti.
Ég greiddi smánarlega lágt verð fyrir þessa fínu bók. Síðan settist ég á veitingasölu, sem er á þriðju hæð verslunarinnar, og hóf lestur um leið og ég sötraði kaffi og nartaði í einhverskonar súkkulaðiköku. (Sennilega notaði ég fleiri peninga í veitingar en sjálfa ljóðabókina. Aumingja Haukur, hugsaði ég, höfundalaunin sem honum áskotnast vegna kaupa minna á bókinni nægja ekki einu sinni fyrir slappri súkkulaðiköku.)
Á þessu saman kaffihúsi hafði ég líka mælt mér mót við Kolbrúnu Bergþórsdóttur, menningarblaðamann og bókagagnrýnanda. En það var drjúg stund þar til að af stefnumóti okkar yrði. Því var kjörið að nota biðtímann að lesa hina nýfengnu bók. Ég skemmti mér við ljóðalesturinn, sérstaklega líkaði mér vel við fyrstu tvo hluta bókarinnar.
Hann las þau öll og reykti
þvílíkur maður (e. what a man)
En ég furðaði mig á áhuga Hauks. ljóðskáldsins, hins skegglausa manns, á Grænlandshákarlinum. Á fleiri en einum stað í bókinni er minnst á hákarlinn. Hefur skáldið komist í tæri við þetta djúpsjávardýr sem étur bæði ketti, hunda og hross?
ps. Í dag klukkan fjórtánhundruð (flugmannamál) flýg ég til Danmerkur. Sem kynningarferð fyrir nýju bókina mína var þetta ferðalag kannski ekki vel heppnað. En mér tókst að sinna nokkrum erindum sem ég hef lengi áformað að ljúka en ekki haft tíma eða dug til fram til þessa.