Hin nýfengna vömb.

Í gær fékk ég óvænt bréf og skemmtilegt frá manni sem ég hef aldrei fyrr verið í sambandi við. Þó þekki ég vel til hans. Bréfritarinn vildi bara láta mig vita að hann hefði líka lesið bók Hauks Ingvarssonar, Menn elska menn, og að hann væri gersamlega ósammála mér. Honum þótti þriðji hluti bókarinnar langbestur, mun betri en fyrstu tveir þættir bókarinnar sem mér þóttu aftur á móti mest varið í. Ég hló satt að segja með sjálfum mér þegar ég las bréf mannsins og fannst nánast yfirnáttúrulegt að skrif mín um bók Hauks Ingvarssonar á Kaktus skyldu vekja þessi sterku viðbrögð hálf ókunnugs mannsins. Kaktus verður kannski nýr og lifandi umræðuvettvangur um bókina Menn elska menn? (e. joke)

En nú er ég á leið til Baskalands, sit í flughöfninni í Kastrup og bíð eftir að flugmennirnir á Boeing þotunni séu tilbúnir til að ferja mig yfir Evrópu og alla leið til norður-Spánar. Viðdvöl mín í Danmörku hefur því verið stutt – einn dagur. Í gær hljóp ég bæði og gekk langa vegu. Það er svo sem ekki í frásögur færandi en ég hitti allt í einu og eftir langt hlé manninn með hundinn sem einu sinni bjó í námunda við mig. En í gær rakst ég á hann sitjandi fyrir utan ítalska veitingastaðinn við Strandvejen þar sem hann var á snæðingi ásamt konu sem ég hef ekki fyrr séð í hans fylgd. Enda kom það í ljós að þetta var ný kærasta.

Maðurinn með hundinn tók mér mjög fagnandi. Hann spratt á fætur þegar hann kom auga á mig og faðmaði mig eins og týndan son. Ég sá hann var búinn að drekka heila vínflösku og skýrði það kannski þessar yfirþyrmandi hlýja viðmót. En ég tók eftir að hann hafði fitnað töluvert frá því að ég sá hann síðast. Þar sem hann hefur alltaf getað tekið stríðni minni spurði ég hvort hann hefði borðað ger, hvernig stæði á því að hann hefði tútnað svona út á fáum vikum. Hann benti á nýja kærustu sína og kenndi henni um.
„Við skemmtum okkur svo vel, við borðum, drekkum og höfum það gott, “ sagði hann og klappaði á nýfengna vömb sína.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.