Við Bilbaofljótið.

Rúmið sem ég sef í hér í leiguíbúðinni í Bilbao er gífurlega óþægilegt. Það er eins og skál og því renn ég sífellt í átt að miðju rúmsins sem er bæði hart og ójafnt. Þetta hefur truflað nætursvefninn. Í nótt þegar ég vaknaði í x-sinn klukkan hálf tvö ákvað ég að fara fram úr rúminu og ganga aðeins um gólf. Mig verkjaði satt að segja í annarri öxlinni eftir að hafa legið í afkáralegri stellingu.

Mér datt í hug að athuga hvort þeir sætu enn á sessum sínum á tröppunum hér fyrir neðan íbúðina, mennirnir sem virðast dvelja þar að minnsta kosti frá morgni og fram yfir háttatíma minn. Ég var satt að segja spenntur að sjá hvort þeir hímdu þarna enn löngu eftir sólsetur. Ég leit út um gluggann sem sneri að tröppunum. Það var bjart úti á götum Bilbao þótt næturhiminninn væri svartur og tunglið hvergi að sjá. Götulýsingin er hins vegar skörp eins og hér sé notað ný lýsingartækni en ekki hið milda götuljós sem ég þekki frá Danmörku. Undir lampaskininu húktu tveir, ungir karlmenn, hver á sinni tröppu eins og þeir vildu ekkert hvor af öðrum vita. Þeir voru umkomulausir í nóttinni. Venjulega sitja um það bil þrjátíu eða fjörutíu karlmenn á tröppunum á meðan dagsljóss nýtur við. Ég hef enn ekki séð neina konu í flokknum. Ekki gat ég greint hvort þessir tveir niðurlútu menn svæfu í sitjandi stellingu en þeir sneru báðir baki í mig. Það var að minnsta kosti djúp og eymdarleg þögn yfir þeim.

Strax og morgnaði varð ég var við fjölgun í hópnum. Meira að segja fyrir sólarupprás hófu þeir að spila tónlist úr hátalaranum sínum, miklu skrímsli sem þeir virðast flytja með sér. Í þetta sinn voru tónarnir ekki ættaðir frá Afríku, eins og í gær, heldur virtist einhver sem aðhylltist amerískt hip-hop stjórna tónlistinni. Ég er ekki viss hver úr hópnum sér um tónlistarval þessara karla – ég er þó farinn að kannast við flest andlitin  –  en ekki þótti mér ólíklegt að ungur maður litað hár – blátt og bleikt – sæi um músikkina í þetta sinn því hann dansaði við taktinn frá tónlistinni þegar ég leit út. Þótt hann ætti augljóslega ættir sínar að rekja til Afríku hreyfði hann sig lipurlega með viðurkenndum amerískum hipp-hop hreyfingum. Þetta þótti mér sérkennileg sjón.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.