Skáldkonan sem heillar

Yfir San Sebastian gnæfir mikil Jesústytta. Styttan hefur verið reist á óbyggðri hæð nyrst í borginni. Á ferðum mínum um borgina hefur mér verið starsýnt á þessa styttu  og hef í huganum sífelld áform um að ganga upp á  hæðina og skoða styttuna úr meiri nálægð. Úr fjarska virðist andlitssvipurinn á Jesústyttunni svo blíður og miskunnsamur að maður eins og ég hef tilhneigingu til að snúa mér í sífellu að styttunni.

Það var þó ekki fyrr en seint í gær að ég hélt af stað upp hæðina. Sjálf styttan er múruð inni í einskonar virki, eða innan hárra veggja sem reistir hafa verið á hæðinni. Tekið var að skyggja í gær þegar ég stikaði upp brekkurnar og uppgangan er fremur löng, eftir stígum og tröppum, gegnum hlið og allskyns göng. Ekki voru margir á ferli þarna í kvöldhúminu og þegar ég tók eftir að á sumum hliðunum hékk hengilás fór ég að hafa áhyggjur af því að ég yrði læstur uppi með Jesústyttunni. Ég ákvað að taka sénsinn á því að þurfa að híma þarna um nóttina því ég var viss um að ég mundi lifa af eina nótt upp á spænskri hæð. Áhyggjurnar af að vera læstur inni reyndust ástæðulausar því ég komst klakklaust upp og niður. Og ég var ánægður að hafa tekið mér tíma til að vitja styttunnar og haldið í þessa stuttu pílagrímsgöngu.

Héðan frá Spáni fylgist ég ekki mjög náið með íslenskum bókamarkaði en tek þó eftir að Fríða Ísberg er sá höfundur sem sviðsljósið beinist helst að. Ég las bók hennar fyrir nokkru að beiðni danskra forlaga og þótti bókin alveg fyrirtak. Fríða virðist hafa þann eiginleika að fá fólk með sér í lið og á auðvelt með að vera elskuð. Þannig virðist þetta vera þaðan sem ég horfi á hlutina. Ég þekki umboðsmann hennar í útlöndum og mér varð ljóst að hún (umboðsmaðurinn) hefur alveg fallið fyrir töfrum höfundarins. Þetta er auðvitað stórkostlegur eiginleiki að eiga svo auðvelt með að heilla samferðamenn sína.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.